Guðmundur Ingi Kristinsson, varaformaður Flokks fólksins, greindi frá því í morgun að honum hafi ítrekað borist fregnir af því að kvenleiðtogar flokksins og sjálfboðaliðar á Akureyri hafi mátt sæta niðrandi og fyrirlitlegri framkomu. Í kjölfarið hafa þær Málfríður Þórðardóttir, Tinna Guðmundsdóttir og Hannesína Scheving Virgild Chester, efstu konur á lista flokksins á Akureyri sent frá sér yfirlýsingu sem má lesa neðst í fréttinni.
„Kæru vinir og félagar Flokks fólksins. Mér þykir afar dapurt að ég skuli finna mig knúinn til að setjast niður og senda frá mér slík skilaboð. En eins og mál eru að þróast hjá forystu flokksins okkar á Akureyri get ég ekki annað. Mér hafa ítrekað borist fregnir af því að kvenleiðtogar okkar og sjálfboðaliðar á Akureyri hafi mátt sæta ótrúlega niðrandi og fyrirlitlegri framkomu síðustu mánuði frá ákveðnum trúnaðarmönnum flokksins. Talað er um að sífellt og stöðugt andlegt ofbeldi, hótanir og jafnvel kynferðislegt áreiti sé það sem kvenleiðtogar Flokks fólksins hafa mátt þola,“ skrifar Guðmundur Ingi á Facebook.
„Sem varaformaður flokksins finn ég mig knúinn til að bregðast við og það strax. Svo það sé alveg skýrt, þá mun ég óska stjórnafundar og leggja fyrir stjórn að taka fyrir og ræða alvarlega þessar ásakanir. Ég og við í Flokki fólksins munum aldrei sætta okkur við ofbeldi, einelti, hótanir né kynferðislegt áreiti af nokkru tagi innan okkar raða.“
Í yfirlýsingu kvennanna segja þær frá hótunum, andlegu ofbeldi og kynferðislegri áreitni sem þær hafa orðið fyrir og segja að samstarfið hafi verið einstaklega taugatrekkjandi og valdið þeim öllum ómældri vanlíðan og kvíða.
Jón Hjaltason sagnfræðingur sem skipaði þriðja sæti á lista flokksins segir í samtali við fréttastofu RÚV í dag að sér hefði brugðið þegar hann sá færslu Guðmundar á Facebook í morgun. „Þetta er bara lygaþvættingur þarna á Fésbókinni og algjörlega fyrir neðan allar hellur að varaformaðurinn láti þetta frá sér. Ég er bara kjaftstopp.“
„Það hefur verið ákveðið ósætti í starfinu og það stóð til að halda fund síðar í vikunni til að greiða úr þeim málum. Svo kemur þessi færsla og ég er bara orðlaus. Ég hef ekki náð í Guðmund í morgun en er á leiðinni suður til Reykjavíkur og ég ætla fá skýringar á þessu,“ segir Jón í samtali við RÚV.
Yfirlýsing kvennanna í heild sinni:
„Í kjölfar yfirlýsinga varaformanns Flokks fólksins í morgun höfum við sem erum þolendur alls þessa ofbeldis sem um er rætt, ákveðið að stíga fram og freista þess að útskýra líðan okkar og ömurlega reynslu af samskiptum við þessa ónefndu karlaforystu og aðstoðarmanna þeirra frá því snemma í vor.
Eftir síðustu bæjarstjórnarkosningar þar sem flokkurinn okkar vann stórsigur var mikill hugur í okkur öllum, jákvæðni og þakklæti til allra þeirra sem gáfu okkur sitt dýrmæta atkvæði og um leið tækifæri til að koma kærleiksríkum góðum málstað Flokks fólksins á framfæri. Við ætluðum að vinna af krafti við að byggja upp félagsstarf flokksins okkar hér heima. Einnig ætluðum við að hafa samráð varðandi öll bæjarráðsmál með því að styðja og styrkja hvert annað. En í ljósi reynslunnar af samskiptum við karlkyns forystu flokksins og aðstoðarmanna hefur þessi góði vilji okkar frekar litast af draumsýn en veruleika.
Efstu konur á lista flokksins voru sífellt lítilsvirtar og hunsaðar. Á trúnaðarfundum flokksins vorum við sagðar of vitlausar eða jafnvel geðveikar til að vera marktækar. Sumar okkar máttu sæta kynferðislegu áreiti og virkilega óviðeigandi framkomu til viðbótar við að vera ekki starfinu vaxnar og geðveikar. Þann 10. sept. sl. boðaði oddviti flokksins til fundar á heimili sínu þar sem við töldum að ætti að freista þess að koma á ró og vinnufriði á meðal okkar. Á fundinum mætti okkur mikil andúð og kuldi og yfirgaf varabæjarfulltrúi hann grátandi eftir tíu mínútur. Oddvitinn dró þá fram bréf sem hann las upp og hótaði að birta. Bréf sem var hlaðið rógburði, rangfærslum og hótunum um að við misstum starfsleyfi okkar sem heilbrigðisstarfsmenn ef við létum ekki að stjórn. Alla daga síðan hafa þessar hótanir verið viðvarandi og umræddu hótunarbréfi dreift.
Eitt er víst að þetta „samstarf“ hefur verið einstaklega taugatrekkjandi og valdið okkur öllum ómældri vanlíðan og kvíða.
Að lokum viljum við segja þetta:
Það er okkur sárara en tárum taki að þurfa að stíga fram og ræða opinberlega um þá erfiðleika og þau innanflokksátök sem við höfum verið að ganga í gegnum. Ástæðan er að sjálfsögðu sú að við viljum ekki á neinum tímapunkti skaða flokkinn og allt það góða fólk innan Flokks fólksins sem er með hjartað á réttum stað. En nú, þegar varaformaðurinn okkar hefur stígið fram og ætlar augljóslega að taka málið föstum tökum, finnst okkur ekkert annað koma til greina en að segja okkar sögu.
Virðingarfyllst,
Málfríður Þórðardóttir
Tinna Guðmundsdóttir
Hannesína Scheving Virgild Chester
UMMÆLI