NTC

Fyrirliði Þórs/KA gáttuð, sár og bandbrjáluð

Fyrirliði Þórs/KA gáttuð, sár og bandbrjáluð

Knattspyrnufélag Akureyrar hefur ákveðið að slíta samstarfi sínu við Íþróttafélagið Þór um rekstur á sameiginlegu kvennaliði í fótbolta og handbolta. Frá þessu var greint í gær en ákvörðunin var tekin á fundi aðalstjórnar KA í fyrradag.

Sjá einnig: Samstarfi Þórs og KA í kvennaboltanum slitið

Ákvörðun KA kom flatt upp á marga og eru margir leikmenn liðsins nokkuð slegnir yfir þessum fréttum.

Karen Nóadóttir hefur verið í lykilhlutverki í liði Þórs/KA undanfarin ár auk þess að vera fyrirliði liðsins. Kaffið heyrði í henni hljóðið og leitaði viðbragða við þessari ákvörðun KA.

,,Ég er svo ofboðslega vonsvikin. Auk þess er ég gáttuð, sár og bandbrjáluð. Ég átta mig ekki á því hvað það er sem KA gengur til með þessu útspili sínu. Ef marka má umræðuna sem hefur verið í gangi á ýmsum miðlum síðan félagið sendi frá sér yfirlýsinguna varðandi þetta, er ég svo sannarlega ekki sú eina. Með því að slíta samstarfinu er í raun bara verið að kveikja í öllu því stórkostlega þrekvirki sem hefur verið unnið í kringum kvennaboltann á Akureyri síðastliðinn rúman áratug.“

Þessir miklu erkifjendur hafa verið í samstarfi með kvennalið sín í fótbolta og handbolta frá árinu 2001 og man Karen tímana tvenna í samstarfinu. Hún minnir á að uppbyggingin hafi hafist af fullum krafti með liði Þór/KA/KS sem tapaði leikjum reglulega með miklum mun. Karen bendir á að viðsnúningurinn hafi verið svakalegur enda hefur Þór/KA verið í fremstu röð á landsvísu undanfarin níu ár. Karen telur að með þessari ákvörðun sé því hent útum gluggann og það sé bæði ótrúlega sárt og með öllu óskiljanlegt. Hún er einnig ósátt með hvernig KA tilkynnir um ákvörðun sína.

,,Þetta kemur mjög á óvart en það sem kemur kannski einna helst á óvart er hversu ofboðslega einhliða þetta er hjá KA. Ef þeirra vilji var að halda ekki samstarfinu áfram þá hefði verið nær að kalla aðalstjórn Þórs og kvennaráð Þór/KA til fundar við sig þar sem málin hefðu verið rædd í þaula, aðilar hefðu getað skipst almennilega á skoðunum og síðan sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu,“  segir Karen.

Leikmenn Þórs/KA skoruðu á félögin að halda samstarfinu gangandi

Mikil umræða hefur skapast um samstarf félaganna að undanförnu en á gamlársdag greindi Kaffið frá því að miklar deilur stæðu á milli forsvarsmanna Þórs/KA og KA vegna ráðstöfunar tveggja milljóna króna. Nánar um það hér. 

Karen, sem sjálf er uppalin í KA, segir leikmenn liðsins vera á einu máli, þær vilja að félögin haldi samstarfinu áfram.

,Síðastliðið haust hringdi ég sjálf í formenn félaganna og óskaði eftir að þeir kæmu til fundar við okkur stelpurnar í Þór/KA þar sem okkur langaði að biðla til þeirra um áframhaldandi samstarf, því við vitum hversu mikilvægt þetta er. Ég get sagt það hreint út að ég fékk ekki þau viðbrögð sem ég bjóst við frá KA en fundurinn var haldinn, þar sem formaður Þórs mætti og framkvæmdastjóri KA. Eftir smá tölu um mikilvægi þess að halda áfram úti sameiginlegu liði afhenti ég þeim undirskriftarlista frá okkur stelpunum. Tekið var við þeim með brosi á vör.“

Helstu skilyrði fyrir áframhaldandi samstarfi væri að liðið myndi skipta um búninga og spila í hlutlausum litum. Ekkert var því til fyrirstöðu og því hefði málið átt að vera klappað og klárt. Kannski hefur umræðan undanfarnar vikur farið illa í mannskapinn en það er ekki sú umræða sem er aðalatriðið í þessu; það eru leikmennirnir og þeirra hagur sem skiptir höfuðmáli. Með því að slíta samstarfinu er verið að setja forgangsröðunina algjörlega á hvolf,“ segir Karen.

KA hefur rekstur kvennaliðs árið 2018

Athygli vekur að í tilkynningu aðalstjórnar KA segir að félagið ætli ekki að hefja rekstur kvennaliðs fyrr en leiktímabilið 2018.

,,Í yfirlýsingunni frá KA kemur fram að í sumar muni liðið spila undir merkjum Þór/KA en það er bara þannig að KA hefur ekkert um það að segja þar sem það er enginn samningur í gildi,“ segir Karen.

Hvernig lítur hún á framhaldið?

,,Það er hreinlega engin forsenda fyrir því að halda úti sitthvoru liðinu. Tímasetningin á þessu er alveg hræðileg og setur hausinn á leikmönnum Þór/KA alveg í mínus. Þetta eru alls ekki atriði sem leikmenn eiga að þurfa að hugsa út í, hvort félagið þeirra sé að fara í hundana. Hér er hreint ekki verið að hugsa um hag leikmanna. Hópurinn er samt sem áður ofboðslega sterkur og samheldinn og mun ekki láta þennan sandkassaleik hafa of mikil áhrif á sig. Sjálf sé ég ekki fyrir mér hvernig í veröldinni þetta dæmi á að ganga upp og satt best að segja er ég skíthrædd. En við þurfum bara að standa saman, hlúa að leikmönnum og setja enn meiri kraft í frábæra liðið okkar.“

Sjá einnig

Þór/KA endaði í topp 4 níunda árið í röð

„Ef að KA mönnum finnst ekkert að því að nota afrekssjóð til eigin nota þá kemur þetta mér ekki á óvart“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó