NTC

Fullt tungl og ár vatnsberans

Fullt tungl og ár vatnsberans

„Það á að vera fjör og gaman,“ segir Aníta Ísey Jónsdóttir, leikstjóri tónleikasýningarinnar Hárið sem sýnd verður í Hofi á Akureyri laugardaginn 16. apríl. „Tónlistin í þessu verki er frábær og hún fær svo sannarlega að njóta sín þetta kvöld, söguna þekkja flestir og á sviðinu er hópur snillinga sem sjá til þess að enginn fer ósnortinn heim,“ bætir Aníta við.

Það má segja að loksins sé komið að þessu, en sýningunni hefur verið frestað tvisvar sinnum vegna heimsfaraldursins. „Þetta hefur verið langur undirbúningur og óvissan mikil um hvort við næðum yfirhöfuð nokkurn tímann að setja þetta verk á svið. Þess vegna hefur tilhlökkunin hjá okkur eingöngu stigmagnast,“ segir Aníta.

Hún segir það vera eins og skrifað í stjörnurnar að verkið hafi ekki farið á svið fyrr. „Þann 16. apríl verður fullt tungl og árið 2022 er ár vatnsberans. Í texta fyrsta lagsins í verkinu ´Að eilífu´ segir „Okkar sól á engan samastað, hún svífur um á vetrarbraut og verður senn í vatnsbera. Þá víkja sorg og þraut.“ Þetta er skemmtileg og falleg tilviljun. Vonandi er sorg og þraut heimsins brátt á enda,“ segir Aníta.

Það sem gerir þessi uppfærslu ólíka öðrum er að hún verður aðeins sýnd þetta eina kvöld. „Fyrir okkur sem stöndum á sviðinu gefur það þessari sýningu miklu meira vægi. Þetta er frumsýning og lokasýning sama kvöld og við munum því gefa allt sem við eigum í þetta,“ segir Hafsteinn Vilhelmsson, einn leikara.

Leikhópurinn er skipaður, auk Hafsteins, Árni Beinteini, Jónínu Björt, Guðnýju Ósk, Arnþóri Þórsteinssyni, Þórdísi Björk og Ívari Helgasyni. Með þeim á verður fjögurra manna hljómsveit undir stjórn Guðjóns Jónssonar á sviðinu og tíu manna kór, Sönghópurinn Rok.

Sambíó

UMMÆLI