Í tilefni af bíllausa deginum, sem er hluti af evrópsku samgönguvikunni, verður frítt í landsbyggðarstrætó á sunnudaginn, 22. september næstkomandi. Þannig geta Akureyringar nýtt sér tækifærið og skotist til dæmis suður til Reykjavíkur sér að kostnaðarlausu.
Það er þó kannski ástæða til þess að halda sig á Akureyri um helgina, því eins og Kaffið hefur áður fjallað um verður bíllausi dagurinn haldinn hátíðlegur með hjólafjöri og fjölskydudegi í Kjarnaskógi.
Í frétt Akureyrarbæjar segir eftirfarandi um evrópsku samgönguvikuna:
Frá árinu 2002 hafa borg og bæjarfélög á Íslandi tekið þátt í samstilltu átaki sveitarfélaga í Evrópu til að ýta undir sjálfbærar samgöngur. Markmið vikunnar er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem eru allt í senn eru vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið og þeir hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft.
UMMÆLI