Frískápurinn við Amtsbókasafnið hefur mælst vel fyrir og er mikið notaður. Markmiðið með frískápnum er að draga úr matarsóun og byggja upp samheldið samfélag með því að deila mat. Hver sem er má skilja eftir matvæli og taka matvæli meðan birgðir endast. Það má þó ekki setja áfengi í skápinn og ekki hrátt kjöt eða hráan fisk nema í óopnuðum umbúðum.
Frískápurinn stendur úti við Amtsbókasafnið og er því aðgengilegur allan sólarhringinn. Skápinn gaf góður viðskiptavinur safnsins, sjálfboðaliðar byggðu skýli yfir hann til að verja fyrir vatni og vindum, og Narfi Storm Sólrúnar sá um að skreyta skýlið.
Sérstakur Facebook-hópur hefur verið stofnaður fyrir Frísskápinn og þar er fólk duglegt að birta myndir af því sem sett er í skápinn.
Starfsmenn Amtsbókasafnsins líta eftir frísskápnum en þurfa lítið sem ekkert að sinna honum þar sem framtakssamir einstaklingar í samfélaginu hafa tekið skápinn upp á sína arma, þrífa hann og deila myndum af innihaldi skápsins hverju sinni. Viðtökurnar hafa verið vonum framar. Skápurinn er mikið nýttur og nánast allt sem í hann er sett hverfur innan sólarhrings. Það hefur varla komið fyrir að henda hafi þurft einhverju úr skápnum.
„Hingað til hafa það fyrst og fremst verið einstaklingar sem setja eitthvað í skápinn, til dæmis fólk sem er að tæma úr ísskápnum heima áður en það fer í frí, fólk sem hefur óvart keypt annað en það ætlaði sér eða að það sér ekki fram á að geta nýtt matvælin áður en kemur að síðasta neysludegi. Mælst er til þess að afgangar séu merktir með dagsetningu og innihaldi. Við skápinn er tússpenni svo hægt sé að merkja ílátin. Fyrirtæki eru hvött til að setja í skápinn matvæli sem annars enda í ruslinu,“ segir í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.
Leiðbeiningar til þeirra sem vilja gefa mat í frískápinn:
- Skiljið aðeins eftir mat sem er í lagi
- Merkið matinn með dagsetningu ef hann er ekki í upprunalegum umbúðum (penni og límband á staðnum)
- Takið endilega mynd af því sem þið setjið í skápinn og deilið í Facebook-hópnum
- Hjálpumst að við að halda frísskápnum hreinum
Frísskápurinn á Akureyri er ekkert einsdæmi en slíka skápa er að finna víða um heim (freedges) og á nokkrum öðrum stöðum á Íslandi eins og sjá má á Instagramsíðunni freedges_iceland.
UMMÆLI