Fríir jólatónleikar í Akureyrarkirkju í kvöld

Fjölskyldutríóið Eyþór Ingi, Elvý og Birkir Blær. Mynd: Daníel Starrason.

Þau Eyþór Ingi Jónsson, Elvý G. Hreinsdóttir, ásamt syni sínum Birki Blæ Jónssyni hafa verið að halda tónleika víðsvegar um Norðurland undanfarið og stefna á tónleika í Akureyrarkirkju í kvöld. Þau vilja ekki titla viðburðinn sem hefðbundna jólatónleika heldur skýrðu þau viðburðinn Snjólatónleikar og lýsa viðburðinum sem hlýlegum vetrartónleikum. Tónleikarnir hefjast kl. 20.00 í kvöld.

Það hafa ekki allir efni á að fara á jólatónleika
Eyþór Ingi segir ástæðuna fyrir því að þau ætli ekki að rukka aðgangseyri sé í fyrsta lagi vegna þess að ekki allir hafa efni á að fara á tónleika og það þykir þeim miður. ,,Það er gríðarlegt framboð af jólatónleikum sem eru oft á tíðum mjög dýrir, því auðvitað er dýrt að leigja húsnæði og halda tónleika. En við gátum gert þetta svona og okkur fannst þetta vera bara í anda jólanna að rukka ekki inn,“ segir Eyþór en hann starfar sem organisti í Akureyrarkirkju.

,,Hann lætur sig hafa það að spila með okkur“
Eyþór segir fjölskylduna alveg vera á sömu nótunum þegar kemur að tónlist og lagavali fyrir tónleikana. ,,Ég verð nú að viðurkenna það að strákurinn er 17 ára gamall og hefur kannski aðeins öðruvísi tónlistarsmekk en við. En hann lætur sig hafa það að spila með okkur,“ segir Eyþór hlægjandi.
Þau einblína á afslappaða og rólega tónlist og lýsa sér sem lágstemmdum tónlistarmönnum. Þau hafa einnig fengið með sér góða gesti til að spila með þeim á laugardaginn kemur og má þar nefna Konna Bartsch, söngvara og gítarleikara; Arnbjörgu Sigurðardóttur, flautuleikara; Fanney Kristjáns Snjólaugardóttur, söngkonu, ásamt félögum úr kammerkórnum Hymnodiu.

Akureyrarkirkja sett í kósý-gallann
Markmið tónleikanna er að skapa þægilegt og afslappandi andrúmsloft með hugljúfum vetrarlögum en Eyþór neitar því ekki að í efnisskránni leynist ef til vill nokkur klassísk jólalög. Akureyrarkirkja verður tekin úr sambandi, ef svo má að orði komast, því að slökkt verður á raflýsingunni og kveikt í staðinn á nokkrum notalegum kösturum og kertum til að ítreka þægindin.

Fjölskyldutríóið komið til að vera?
Það virðist vera nóg að gera hjá fjölskyldunni um þessar mundir en þau stefna á þrenna tónleika til viðbótar í janúar á Norðurlandi. Þau hlutu styrk fyrr á árinu til þess að fara í þetta flotta tónleikaverkefni og vildu gefa til baka fyrst að þau gátu með þessum ókeypis jólatónleikum. ,,Við þurfum ekkert að græða á því að syngja jólalög,“ segir Eyþór kátur að lokum.

Greinin birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi 14. desember.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó