KA/Þór getur tryggt sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil á sunnudaginn takist liðinu að sigra Val í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvíginu. KA/Þór vann fyrsta leik viðureignarinnar í KA-heimilinu í gær. Aðdáendum liðsins verður boðið frítt í hópferð suður til þess að styðja við liðið á sunnudaginn.
Sjá einnig: KA/Þór vann fyrsta leikinn um Íslandsmeistaratitilinn
„Stórkostlegur stuðningur ykkar í stúkunni átti klárlega stóran þátt í sigrinum í gær og það er alveg ljóst að stelpurnar þurfa aftur á okkur öllum að halda á sunnudaginn. Við bjóðum því upp á fría hópferð fram og til baka,“ segir í tilkynningu á vef KA.
Brottför verður klukkan 9:00 á sunnudaginn og svo verður farið aftur heim að leik loknum. Ferðin suður verður í boði frítt en fólk þarf þó að kaupa sér miða á leikinn í gegnum miðasöluappið Stubbur.
UMMÆLI