Freyja Reynisdóttir opnar sýningu sína Atarna – Yonder í Einkasafninu í Eyjafjarðarsveit

Freyja Reynisdóttir opnar sýningu sína Atarna – Yonder í Einkasafninu í Eyjafjarðarsveit

Freyja Reynisdóttir er seinni Sumarlistamaður Einkasafnsins 2024. Hún bætist þar með í glæsilegan hóp listamanna sem unnið hafa í Einkasafninu á sumrin, síðan 2020 og sýnt þar afrakstur vinnu sinnar.

Freyja Reynisdóttir (f. 1989) býr og starfar á Akureyri. Hún útskrifaðist frá Myndlistaskólanum á Akureyri árið 2014 og með meistaragráðu í frjálsum listum frá Listaháskóla Íslands 2022. www.freyjareynisdottir.com

Listferill Freyju hófst með rannsóknum á hlutgerð ó-hluta og hefur einkennst af tilraunum í gegnum ýmsa miðla, allt frá gjörningum og myndbandsinnsetningum til fígúratífra sjálfsmynda. Róandi pastel grunnar brotnir upp með háværum bláum, gulum og rauðum, framsett með „minna er meira“ að leiðarljósi gera listsköpun Freyju Reynisdóttur aðlaðandi og forvitnilega í senn. 

Efnisval Freyju er fjölbreytt en hún hefur reynst óhrædd við að læra og kanna mismunandi samsetningar efna til að ná fram tilætlaðri útkomu. Samansoðið glerborð og önnur verk úr járni sem var hluti útskriftarsýningar hennar úr LHÍ, „SEARCHING“ ber þess vitni.

Fagurfræði verkanna segir þó einungis hálfa söguna. Sýningar hennar eru ekki aðeins framsetningar sem notalegar eru að horfa á – þó að innsetning Freyju á sýningunni „GERÐUResque“ í Gerðarsafni árið 2021 hafi vissulega verið undantekning þar á, enda var titill verksins bókstaflega „eitthvað til að horfa á“. Þess í stað tekur hún þátttöku-nálgun í list sinni þar sem markmiðið er að skapa umgjörð utan um mögulegt samtal milli sýningargesta og verkanna sem standa til sýnis. Hún sækist eftir að stilla fram spurningum í stað svara og hvetur þannig til upplifunar, án þess að stjórna því hver hún er eða „á að vera“. 

Verk Freyju á undanförnum sýningum hafa ekki aðeins verið í samtali við sýningargesti, heldur einnig við rýmin sem þau hafa verið staðsett í. Hvort heldur með vísbendingum sem beina þátttakendum í einhverja átt sem talist getur verið sú „rétta“ frá einu verki til hins næsta, verk séð úr mismunandi sjónarhornum innan rýmisins eða speglun, tekst Freyju að skapa kraftmikið samspil verka, gesta og rýmis. 

Áður hafa þau: Aðalheiður Eysteinsdóttir, Aðalsteinn Þórsson, Arna G Valsdóttir, Brák Jónsdóttir, Dagrún Matthíasdóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Joris Rademaker, Kristín Reynisdottir og Pétur Magnússon verið Sumarlistamenn, unnið og sýnt í Einkasafninu. 

Einkasafnið stendur stutt ofan við syðri afleggjara Kristnesvegar, þjóðvegur 822. Það er staðsett í gróðursælum lundi þar sem fjallalækur skoppar um gildrag og listamenn gera sýningar sínar í landinu og í 15 m2 safnhúsinu. Einkasafnið er merkt á Google Maps og einnig eru merkingar á staðnum. u.þ.b. 10 km sunnann Akureyrar. Einkasafnið heldur utan um söfnun Aðalsteins Þórssonar myndlistarmanns á afgöngum lífs hans. Sýningin opnar kl. 14 á laugardaginn 27. júlí og er auk þess opin 28. júlí, 3. og 4. ágúst. frá 14. – 17. alla dagana. Aðgangur er ókeypis og er öllum opin. Upp að sýningarsvæðinu er stuttur náttúrustígur en nokkuð brattur. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó