Fresta gjaldtöku á bílastæðum á Akureyrarflugvelli

Fresta gjaldtöku á bílastæðum á Akureyrarflugvelli

Stjórnendur og stjórn Isavia Innanlandsflugvalla hafa ákveðið að fresta gjaldtöku á bílastæðum á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum þar til síðar á þessu ári. Jafnframt segir í tilkynningu að stjórnin vilji skoða þær efnislegu ábendingar sem hafa komið fram varðandi fyrirkomulag gjaldskrár. Hefja átti gjaldtöku á bílastæðum við Egilsstaðaflugvöll og Akureyrflugvöll í byrjun febrúar. 

„Eftir samtal bæði við nærsamfélagið á Akureyri og Egilsstöðum og einnig við fulltrúa Innviðaráðuneytisins hefur verið samþykkt að hraða möguleikanum á því að hefja gjaldtöku á bílastæðunum við Reykjavíkurflugvöll þannig að hún geti hafist næsta vor. Því verður beðið með gjaldtöku á bílastæðunum á Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli þar til á vordögum og innleiða gjaldtökuna á sama tíma á flugvöllunum þremur.  Stefnt er að því að fara í gjaldtökuna í Reykjavík þó enn sé framtíð flugstöðvarinnar á Reykjavíkurflugvelli óráðin. Búnaður verður settur upp sem mun virka með sama hætti og sá sem verður rekinn á Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli,“ segir í tilkynningu Isavia.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla segir að eftir samtal við ráðuneytið og athugun á því hvort þetta væri möguleiki hafi niðurstaðan verið þessi. „Gjaldtaka á bílastæðum millilandavallanna er mikilvæg leið til tekjuöflunar fyrir uppbyggingu á bílastæðum við flugvellina nú þegar áherslan á Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli er á millilandaflug og samkomulag um framhald á því verkefni í höfn,“ segir Sigrún. „Í því sambandi er mikilvægt að tryggja sem best að farþegar geti gengið að lausum bílastæðum þegar þeirra er þörf.“

Of oft hafi bílum hefur verið lagt í stæði við vellina til lengri tíma, svo dögum, vikum eða jafnvel mánuðum skiptir. Í einstaka tilvikum, t.d. þegar malbikunarvinna eigi sér stað, hafi verið flókið verkefni  að hafa upp á og komast í samband við eigendur bílanna áður en þeir voru fjarlægðir. Með aukinni millilandaumferð eykst þörfin fyrir bílastæði. Framboð á þeim þurfi að vera tryggt og aðstaðan góð. Þar hjálpi gjaldtakan til við að bæta upplifun farþega af bílastæðunum.

 „Síðustu daga höfum við fengið þá spurningu  hvort gjaldtakan sé lögmæt,“ segir Sigrún. „Samkvæmt þjónustusamningi ríkisins við Isavia Innanlandsflugvelli  um rekstur innanlandsflugvallanna fer Isavia Innanlandsflugvellir með umráð lóðanna sem um ræðir. Í samningnum er sérstök heimild til að afla tekna frá þriðja aðila vegna afnota af lóðunum. Umræða síðustu daga er afar mikilvæg og ég fagna því tækifæri að hafa geta farið yfir málið.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó