NTC

Frelsi til að velja sér samgöngumáta á Akureyri

Þróun samgangna á Akureyri hefur tekið miklum breytingum. Ég ólst upp við þá stöðu að mun færri áttu eða höfðu aðang að einkabíl heldur en nú á tímum og algjör undantekning ef það voru tveir bílar á heimili. Þá var hjólað og gengið mun meira en í dag en mér virðist strætó hafa haft svipað vægi og nú.

Núna sé ég allt aðra mynd. Lang flestar ferðir sem farnar eru á Akureyri eru í einkabíl. Samgöngukerfið er þróað og byggt fyrir einkabíla. Að mínu viti er þjónustustigið fyrir þetta fyrirkomulag í góðu lagi en við erum byrjuð að finna fyrir plássleysi vegna bílafjölda. Að sjálfsögðu fylgir þessu kostnaður bæði hjá fjölskyldum, fyrirtækjum og Akureyrarkaupstað.

Fyrir nokkrum árum stóð ég frammi fyrir vali. Það var að vera með tvo bíla í rekstri á heimilinu eða fá mér bara reiðhjól í stað annars bílsins. Ég valdi reiðhjólið vegna þess að það þýddi miklu minni útgjöld. Ég hefði í raun getað stytt vinnudaginn á móti þessum aukna ferðatíma og samt komið út í gróða. Fyrirfólk í bænum var líka búið að halda því á lofti hve bærinn væri fjölskylduvænn og það væri komin hellingur af stígum og allskonar fyrir útivist. Öll lífsins gæði.

Samgöngur eða afþreying?

En reynslan sýndi mér að þetta er ekki eins fínt og af var látið. Oft hefur mér fundist að markorð þeirra sem stjórna framkvæmdum og rekstri í samgöngukerfi án bíls sé “Leggðu lykkju á leið þína”. Eyður í stígakerfinu, vanhugsað umferðarskipulag, háir kantar, auka hlykkir, ástæðulausar vinkilbeygjur, óþarfa hæðarmunur, ónóg og gölluð hjólastæði, léleg lýsing og blindhorn. Allt stíga og gangstéttakerfið virðist hugsað fyrir góðviðris göngutúra mun frekar en samgöngur.

Hvað varðar rekstrarþjónustuna fyrir hjóla og gönguleiðir hafa orðið framfarir en betur má ef duga skal. Nýliðinn vetur voru það rúmlega 20 morgnar sem ég gat ekki notað hjólið til að fara til vinnu vegna lélegs snjómoksturs og/eða saltkrapadrullu. Fólk komst leiðar sinnar á litlum fólksbílum en ég komst ekki leiðar minnar á fullnegldu fjallahjóli. Hálka skipti mig engu máli.

Þetta allt saman opnaði augu mín fyrir því að smátt og smátt hefur orðið til þvingun í þá átt að gera fólki erfiðara fyrir en ástæða er til að velja bíllausan lífstíl. Það er ekki jafnræði milli hópanna hvað varðar skipulag, framkvæmdir og rekstrarþjónustu. Ef það yrði gerð alvöru úttekt á því hvað það myndi spara sveitarfélaginu ef t.d. 20% ferðanna sem eru nú með einkabílum dreifðust yfir í strætó, gangandi eða hjólandi er ég viss um að útkoman kæmi mörgum á óvart. Sparnaður fjölskyldnanna er líka ótvíræður.

Hvað þarf að gera? Hver er lausnin?

Byrja á þarfagreiningu. Styðjast við hönnunarforsendur sem miðast við SAMGÖNGUR umfram leik. Með greiðfærni og öryggi sem aðalmarkmið. Forgangsraða skipulagsbreytingum og framkvæmdum til að forðast óþarfa byggingarkostnað.

Það er ástæðulaust að banna bíla en það má gera ráð fyrir fleiri möguleikum í alvöru samgöngukerfi. Það gæfi bílum líka meira pláss.

Ólafur Kjartansson varamaður VG í skipulagsráði skipar 13 sæti á lista VG Akureyri í komandi kosningum.

Sambíó

UMMÆLI