„Kosningabaráttan á Akureyri líkist meira huggulegu spjalli í saumaklúbb en alvöru kosningabaráttu“. Einhvern veginn svona kynnti Lóa Pind Aldísardóttir umræðuþátt oddvita akureyrsku flokkanna á Stöð2 fyrir fjórum árum. Ég held það sé ekki endilega fjarri sanni enda hefur bæjarstjórnin verið ansi samhent og lítil gagnrýni verið á störf meirihlutans ef undan eru skilin leikskólamálin. Enda var meirihlutinn myndaður á forsendum félagshyggju og jöfnuðar sem er alltaf góður grunnur að stjórnun sveitarfélags. Bæjarfulltrúar hafa unnið af heilindum og heiðarleika og bæjarfélagið okkar er svo heppið að hafa nóg af frambærilegu og góðu fólki sem vill leggja sig fram við að þjóna samfélaginu.
Það er þó eitt sem við í Vinstri grænum teljum hafa vantað mjög upp á. Það er framtíðarsýn. Heimurinn allur er á fleygiferð og miklar samfélagsbreytingar eiga sér stað hvort sem litið er til útlanda eða hingað heim til Akureyrar. Talað er um fjórðu iðnbyltinguna sem byggir á hraðri tækniþróun, notkun gervigreindar, róbótatækni og sjálfvirknivæðingu svo eitthvað sé nefnt að ógleymdum gríðarlegum áskorunum í umhverfismálum.
Hvernig ætlum við að nýta okkur allt það góða sem þessar breytingar hafa í för með sér og hvernig ætlum við að takast á við þær áskoranir sem fylgja?
Ég hef, sem bæjarfulltrúi VG, lagt fram nokkrar tillögur sem sumar hafa hlotið stuðning bæjarstjórnar en aðrar ekki. Ég nefni sem dæmi tillögur um styttingu vinnuvikunnar, samgöngusamninga við starfsfólk, nútímalegri stjórnunarhætti, lækkun leikskólagjalda og eflingu forvarna.
Nú erum við, frambjóðendur VG, að leggja lokahönd á málefnavinnuna okkar. Í henni er ein mjög skýr lína. Við viljum fyrst og fremst leggja áherslu á góða heilsu og almenna vellíðan bæjarbúa. Við viljum einbeita okkur að ungum fjölskyldum og létta undir með þeim með bætingu leikskólakerfisins. Við viljum auka vellíðan nemenda og kennara í skólunum, huga betur að umhverfismálum og minnka sóun, hvetja bæjarbúa til hreyfingar og geðheilsuræktar, minnka stressið og njóta sem best alls þess dásamlega sem umhverfi okkar og samfélag hefur upp á að bjóða.
Á þessu byggjum við okkar málefnaskrá og kosningaloforðið okkar er: Við munum stjórna bænum af skynsemi og framsýni með jöfnuð, vellíðan og sjálfbærni sem okkar leiðarstef.
Sóley Björk Stefánsdóttir
UMMÆLI