NTC

Framtíðin björt í Listagilinu

 

Ingibjörg Ólöf Isaksen skrifar:

Framkvæmdir við Listasafnið á Akureyri í Listagilinu hafa staðið lengi til og verið lengi í umræðunni. Um stóra og umfangsmikla framkvæmd er að ræða og er að miklu leyti uppsafnað viðhald margra ára. Kominn er tími til að ráðast í viðhald á húsnæðinu áður en það skemmist með þeim afleiðingum að erfitt yrði að nýta það.

Ég hef setið í framkvæmdaráði, sem nú heitir umhverfis- og mannvirkjaráð, sl. þrjú ár og þar hefur þessi framkvæmd reglulega verið rædd. Í skýrslunni „Akureyrarbær – miðbær, Húsakönnun“ sem unnin var af Landslagi ehf. fyrir Akureyrarbæ árið 2014, er farið yfir menningarsögulegt gildi húsanna í Gilinu sem er gríðarlega mikið. Í skýrslunni kemur m.a. fram að Ketilhúsið, Kaupvangsstræti 8, var byggt árið 1949 sem ketilstöð KEA og var þar framleidd gufa til þeirra verksmiðja sem KEA rak í þá daga í Grófargili. Listasafnið, Kaupvangsstræti 10-12, er byggt á árunum 1937-1939 sem mjólkursamlag KEA og síðar var þar Brauðgerð KEA.

Varðveislugildi húsanna er því talið vera mikið sökum fallegs byggingarstíls og staðsetningar auk þess að hafa mikið menningarsögulegt gildi sem hluti af sögu KEA og iðnaðar í bænum. Miklar endurbætur voru gerðar á þessum húsum upp úr 1990 þegar uppbygging Listasafnsins hófst og lýsti mikilli framsýni þeirra sem stýrðu bænum á þeim tíma. Listasafnið á Akureyri opnaði síðan þann 29. ágúst 1993 í hluta af Kaupvangsstræti 10-12 og Ketilhúsinu.

Í dag er Listasafnið á Akureyri rekið í hluta húsnæðis Mjólkursamlagsins og í Ketilhúsinu.

Á árinu 2011 kom fram hugmynd um að tengja saman Listasafnið og Ketilhúsið. Fjórða hæð hússins býður upp á mikla möguleika fyrir safnið, rýmin sem þar er að finna eiga sér varla hliðstæðu hér á landi og myndi stækkunin því setja Listasafn Akureyrar í einstaka stöðu meðal safna á Íslandi.

Mikil þörf hefur verið á viðhaldi á húsunum en því frestað árum saman þar sem til stóð að fara í þessa stóru framkvæmd. Endurbætur á húsnæðinu eru því mikilvægar til þess að það verði ekki fyrir skemmdum og verði jafnvel að lokum ónothæft.

Í dag er staðan sú að húsnæðið uppfyllir ekki kröfur um eldvarnir, heilbrigðismál og aðgengismál. Endurnýja þarf allar vatns- og raflagnir og loftræsikerfi auk þess sem hugað verður að aðgengi fatlaðara. Í dag kemst einstaklingur á hjólastól ekki milli hæða þar sem engin lyfta er í húsinu.

Rætt hefur verið um það hvort þörf sé á tengiganginum milli Mjólkursamlagsins og Ketilhússins. Ég tel fulla þörf á að hann verði gerður. Tengigangurinn tengir þessi tvö húsnæði saman en með því næst rekstrarlegt hagræði og eykur möguleika í starfsemi safnsins til muna.

Með framkvæmdinni verður jafnframt til almenningssalernisaðstaða í miðbænum sem þörf hefur verið á lengi.

Það er því ljóst að ráðast þarf í gagngerar endurbætur á húsnæðinu til þess að það uppfylli kröfur sem gerðar eru til húsnæðis listasafns gagnvart reglugerðum, rekstraraðilum og notendum. Samtals er húsnæði Listasafnsins um 2.400 m2.

Framkvæmdir sem ráðist verður í á árinu 2017 eru vissulega kostnaðarsamar en vert er að hafa í huga að meirihluti bæjarstjórnar hefur dregið verulega úr framkvæmdum á kjörtímabilinu. Meðalfjárfesting á þessu kjörtímabili hefur verið tæpur milljarður á ári.

Há innri leiga hjá Akureyrarbæ og aukning á henni hefur verið nefnd af þeim sem eru á móti þessari fjárfestingu en þá má ekki gleyma því að þessi háa leiga í dag er m.a. til komin vegna mikilla framkvæmda Sjálfstæðisflokksins á árunum 2002-2010. Meðalfjárfesting á ári á þeim árum var rúmur 2,1 milljarður en þess ber að geta að áætlaðar framkvæmdir ársins í ár eru áætlaðar 1,2 milljarðar.

Framkvæmdir við Listasafnið á Akureyri eru þarfar og tímabærar. Endurbyggt Listasafn mun laða að vaxandi fjölda ferðamanna sem sækja Akureyri heim.  Falleg salarkynni fyrir hreyfihamlaða, eldri borgara, jafnt sem börn og barnafólk. Stórbætt aðstaða fyrir safnkennslu og safnfræðslu skapast auk þess sem nýting húsnæðisins eykst til muna sem skapar um leið aukna tekjumöguleika.

Listagilið með fjölbreyttri starfsemi allt frá grasrót listamanna, vinnustofum, fjölda sýningarýma, myndlistarskóla, veitingaaðstöðu og glæsilegu listasafni mun verða aðdráttarafl og mikil lyftistöng fyrir bæjarbraginn, ferðamennskuna og okkar blómlega bæ. Framtíðin er björt í Listagilinu á Akureyri.

Greinin birtist upprunalega í Akureyri Vikublað

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó