Akureyringurinn Brimir Birgisson, sem er á sextánda ári, var valinn í Þýska Counter-Strike 2 liðið MOUZ NXT nú á dögunum. Kaffið ræddi við Brimi og foreldra hans um afrekið, en um er að ræða stökkpall sem gæti sent hann alla leið á toppinn í einni stærstu rafíþrótt heims.
Hvað þýðir það?
Fyrir þá sem ekki þekkja til rafíþrótta ber að segja stuttlega frá leiknum sem um ræðir, Counter-Strike 2, til þess að setja þetta afrek Brimis í rétt samhengi:
Tölvuleikurinn Counter-Strike 2 er fyrstu-persónu skotleikur í Counter-Strike seríunni. Leikmönnum er skipt upp í tvö fimm manna lið og þeim úthlutað hlutverk. Annað liðið leikur hryðjuverkamenn sem hitt liðið þarf að stoppa, til dæmis með því að aftengja sprengjur þeirra eða frelsa gísla. Til þess að ná árangri þurfa einstaka leikmenn að sýna bæði snerpu og bragðvísi, en einnig þarf liðið sem heild að vinna saman og leggja vel á ráðin.
Counter-Strike er ein stærsta rafíþrótt heims. Ýmis félög og fyrirtæki setja upp mót og mótaraðir sem draga reglulega að tugþúsundir áhorfenda. Áhorfendur á allra stærstu mótin geta jafnvel skipt miljónum og verðlaunaféð hljóðað upp á tugmiljónir króna. Samkeppnin er því gríðarlega hörð og fyllilega sambærileg við hefðbundnar íþróttir.
Stökkpallur sem gæti sent hann alla leið
Liðið sem Brimir spilar nú fyrir, MOUZ NXT, er svokallað „academy“ lið þýska rafíþróttafélagsins MOUZ. Academy lið eru til þess gerð að finna hæfileikaríka upprennandi rafíþróttamenn líkt og Brimi og þjálfa þá í faglegu umhverfi. Slík lið keppa yfirleitt að mestu leyti í lægri deildum atvinnumennsku, en þurfa þó reglulega að etja kappi við sum af bestu liðum heims. Mörg rafíþróttafélög halda uppi slíkum liðum í von um að skapa stjörnuleikmenn framtíðarinnar. Rafíþróttadeild Þórs hér á Akureyri hefur til að mynda haldið uppi slíku liði og átti þórsarinn Brimir einmitt þátt í stofnun þess: „Ég sendi póst á Þór þegar rafíþróttadeild Þórs var ný og spurði hvort ég og vinir mínir mættum vera Þór ‚junior/academy.‘ Við fengum það og fórum að æfa hjá Þór.“
MOUZ NXT situr í 74. sæti á heimsvísu á styrkleikalista Valve þegar þessi frétt er skrifuð, en 219 lið eru á listanum. Móðurlið MOUZ NXT, sem heitir einfaldlega MOUZ, situr þar í fimmta sæti eins og er, en var í því fyrsta fyrir ekki löngu síðan.
Brimir, sem gengur undir nafninu „bl1ck“ þegar hann spilar, er á reynslutímabili hjá MOUZ NXT. Hann á því möguleika á að komast á samning hjá liðinu. Ef svo fer þá verður það fullt starf og Brimir orðinn atvinnumaður í sinni íþrótt, aðeins fimmtán ára gamall. „Þetta er mjög stór stökkpallur,“ segir Brimir og bendir á að allir núverandi meðlimir MOUZ séu komnir þangað frá MOUZ NXT. Þetta er því gríðarlega stórt tækifæri sem Brimir ætlar ekki að láta fram hjá sér fara: „Framtíðarplönin eru að komast á toppinn.“
Allt á réttri leið
Að vera valinn í lið á borð við MOUZ NXT er heljarinnar afrek og hefur lengi verið markmið fyrir Brimi: „Ég var bara í smá sjokki þegar þjálfarinn valdi mig í þetta lið og ég var mjög glaður. Ég hef stefnt að þessu síðan ég fór að spila CS af einhverrri alvöru.“
Fyrsti leikur Brimis með MOUZ NXT fór fram þann 30. september síðastliðinn. Þar mættu hann og liðsfélagar hans sænska liðinu Johny Speeds í fyrstu lotu mótsins Shuffle Masters. Þeir sænsku höfðu þó betur og sigruðu Brimi og félaga 2-0. Hér er það þess virði að minnast á að Johny Speeds eru engin lömb að leika við, en þeir unnu síðar mótið og hafa nýlega setið í 40. sæti á styrkleikalista Valve. Brimir stóð sig með prýði í leiknum og vann sér inn næst-hæstu einkunnina meðal síns liðs. Forvitnir geta séð nánari upplýsingar um hvernig leikurinn fór með því að smella hér.
MOUZ NXT skipti nýverið út öllum leikmönnum sínum nema einum, svo í raun er um glænýtt lið að ræða. Þessi nýji leikmannahópur tapaði því miður sínum fyrstu tveim keppnisleikjum, en meðan þessi grein var unnin leiðréttu þeir stefnu sína og unnu næstu tvo leiki í röð. Stemmir það við orð Brimis, sem segir það afar eðlilegt að það taki glænýtt lið smá stund að komast á gott ról og lýst honum vel á gang mála: „Það gengur mjög vel í æfingum og unnum við til dæmis nýlega lið sem er top 20 í heiminum.“
Það er því að skilja af frásögn Brimis að allt sé að ganga eftir óskum, en jafnvel ef hann hlýtur ekki samning hjá MOUZ NXT þá heldur hann áfram sínu striki, reynslunni ríkari: „Ég vona að ég komist í liðið en ef ekki þá er þetta samt búið að vera mjög góð reynsla og ég hef nú þegar lært mikið,“
Stoltir foreldrar
Foreldrar Brimis eru þau Elinborg Freysdóttir og Birgir Birgisson. Þau segjast ekki hafa gert sér grein fyrir því í fyrstu hversu stórt tækifæri þetta væri fyrir Brimi: „Þetta er náttúrulega heimur sem við þekkjum ekki alltof vel en höfum aðeins kynnst í gegnum Brimi.“ Þau leggja sig þó að sjálfsögðu fram við að skilja hans heim og styðja við bakið á syni sínum: „Við reynum að fylgjast með og kynna okkur þetta og horfum á þegar hann er að keppa sem er mjög skemmtilegt. Þetta er frábært tækifæri og við erum spennt að vita hvert framhaldið verður.“
Margir foreldrar hafa eflaust upplifað það að þurfa stanslaust að hvetja unglinginn sinn til þess að eyða ekki öllum sínum tíma í tölvuleiki. Aðspurð hvort það væri eitthvað sem þau könnuðust við sögðust foreldrar Brimis alltaf hafa stutt hann í öllum sínum áhugamálum, sama hvort þau væru í raunheimum eða hinum stafræna: „Hann er nú þannig gerður að þegar hann fær áhuga fyrir einhverju þá á það hug hans allan og erfitt getur verið að halda aftur af honum. Við höfum því hvatt hann áfram í þessu en líka reynt að passa uppá að tölvan taki ekki alveg yfir. En jú líklega urðum við aðeins jákvæðari fyrir því að hann væri meira í tölvunni eftir að hann fór að keppa í þessu.“
Kaffið þakkar Brimi og foreldrum hans fyrir samtalið og óskar Brimi áframhaldandi góðs gengis í rafíþróttum sem og öðrum verkefnum sem hann kann að taka sér fyrir hendur.
UMMÆLI