Framkvæmdasamkeppni um hönnun á nýjum stúdentagörðum

Framkvæmdasamkeppni um hönnun á nýjum stúdentagörðum

Félagsstofnun stúdenta á Akureyri (FÉSTA) í samstarfi við Arkitektafélag Íslands efnir til framkvæmdasamkeppni um hönnun á nýjum stúdentagörðum. Samkeppnissvæðið er innan háskólasvæðisins, nánar til tekið á austurjaðri þess og meðfram Dalsbraut. Samkeppnissvæðinu er skipt upp í tvær lóðir. Uppbygging stúdentagarðanna er fyrirhuguð í tveimur áföngum, fyrri áfanginn yrði uppbygging á nyrðri lóðinni og seinni áfanginn yrði á syðri lóðinni. Áætlaður framkvæmdatími fyrri áfanga er vorið 2025, tilbúið til notkunar haustið 2026. Þetta kemur fram á vef Háskólans á Akureyri.

„Ég bind vonir við að við fáum fullt af frábærum tillögum. Með tilkomu nýrra bygginga getur FÉSTA annast betur þá eftirspurn sem hefur verið á stúdentaíbúðum síðustu ár. Veruleg aukning hefur til dæmis verið eftir minna húsnæði en meirihluti þeirra íbúða sem við eigum í dag eru stærri íbúðir. FÉSTA vill geta boðið upp á fleiri leigurými fyrir þá stúdenta sem vilja flytja til Akureyrar á meðan námi þeirra stendur. Þá er mikilvægt að byggja upp stúdentagarða á háskólasvæðinu sjálfu en slík uppbygging hefur ótal tækifæri í för með sér, það má í raun segja að þetta sé mikilvægt púsl í háskólasamfélagið hér á AKureyri,“ segir Jóhannes Baldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÉSTA, á vef HA.


Skýringarmynd — mögulegar byggingar

„Markmið samkeppninnar er að fá tillögur sem gerir FÉSTA kleift að byggja bjartar og aðlaðandi íbúðir í góðu samræmi við húsnæðisþarfir stúdenta HA. Áhersla er á vistvænt skipulag, vistvottaðar byggingar og blágrænar ofanvatnslausnir. Byggingar skulu falla vel að landslagi og endurspegla góða byggingarlist. Horft er til að formun á innra og ytra rými sé sannfærandi og hvetji til samveru og auki á félagsfærni og vellíðan íbúa. Miða skal við að allur frágangur bygginga og lóða sé vandaður og endingargóður. Lögð er áhersla á aðlaðandi umhverfi í samræmi við stefnu FÉSTA um uppbyggingu stúdentagarða,“ segir á vef HA.

Áhugasöm geta nálgast nánari upplýsingar um samkeppnina hér.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó