Á kynningarfundi sem haldinn var í Listasafninu á Akureyri í dag var dagskrá ársins 2019, nýr ársbæklingur og komandi starfsár kynnt. Einnig var farið yfir þá breyttu starfsemi sem nú er í safninu eftir opnun nýrra salarkynna í ágúst á síðasta ári. Í lok fundarins var undirritaður nýr samstarfssamningur Listasafnsins og Norðurorku. Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins, og Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, undirrituðu samninginn. Prentaðri dagskrá ársins var í dag dreift í öll hús á Akureyri.
Sýningaárið 2019 hefst á laugardaginn
Sýningaárið 2019 hefst formlega með tveimur opnunum næstkomandi laugardag 9. febrúar kl. 15 þegar sýningar Tuma Magnússonar, Áttir, og Kristínar Gunnlaugsdóttur og Margrétar Jónsdóttur, SuperBlackverða opnaðar.
Sjá einnig: Listasafnið á Akureyri: Tvær opnanir á laugardaginn
Fyrsta heila starfsárið í nýjum salarkynnum framundan
Framundan er fyrsta heila starfsárið í nýju safni með 12 sýningarýmum og miklum möguleikum. Fjölbreytnin verður áfram höfð að leiðarljósi með sýningum og viðburðum sem ættu að höfða til sem flestra. Alþjóðleg myndlist, samsýningar og einkasýningar, myndlist og hönnun ungra og upprennandi listamanna auk sýninga listamanna sem búa og starfa á Norðurlandi verða áberandi á árinu.
Þriðjudagsfyrirlestrarnir verða áfram stór þáttur í fræðslustarfi Listasafnsins en þeir eru settir upp í samvinnu við Verkmenntaskólann á Akureyri, Myndlistarfélagið og Gilfélagið. Þeir eru sem fyrr haldnir á hverjum þriðjudegi kl. 17-17.40 yfir vetrartímann.
Aðstaða fyrir safnkennslu og fyrirlestra er nú fyrsta flokks eftir breytingar og kaffihúsið í anddyrinu gerir safnið að enn betri áfangastað fyrir gesti og heimamenn. Leiðsögn fyrir börn og fullorðna heldur einnig áfram að þróast.
UMMÆLI