Karlalið Skautafélags Akureyrar varð deildarmeistari í íshokkí í gærkvöldi. Í byrjun mars mánaðar hafði kvennalið Skautafélagsins einnig tryggt sér deildarmeistaratitilinn í Hertz-deild kvenna árið 2021.
Karlarnir hafa unnið átta af níu leikjum sínum og þá hafa konurnar unnið alla sína sjö leiki. Yfirburðir SA í íshokkíinu í vetur hafa því verið töluverðir.
Síðustu helgi lauk þá Bikarmótaröð Skautasambands Ísland þar sem Skautafélag Akureyrar vann Bikarmeistaratitil ÍSS. Stúlkurnar úr Skautafélagi Akureyrar stóðu sig frábærlega og unnu gullverðlaun í öllum aldursflokkum.
Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir skautaði til sigur í Advance Novice flokki með 86,87 heildarstig. Júlía Rós Viðarsdóttir sigraði í Junior flokki með miklum yfirburðum. Í efsta keppnisflokkinum, Senior, keppti Aldís Kara Bergsdóttir, íþróttakona Akureyrarbæjar árið 2020. Aldís, sem er nýfarin að keppa á fullorðinsstigi, gerði sér lítið fyrir og sigraði í flokknum. Frábær árangur hjá skautastelpum SA.
UMMÆLI