Nei þetta er ekki mismæli og átti ekki að vera fatalisti og því síður plötulisti. Fötulisti er þýðing á enska orðinu “bucketlist” en slíkur listi er upptalning á því sem maður vill ná að gera á lífsleiðinni áður en fötunni er „sparkað” (“to kick the bucket”) eða áður en maður geispar golunni upp á íslensku. Lífið er stutt hvernig sem á það er litið og það getur verið svo miklu styttra en maður ætlar. Því er fötulistinn ágætis hvatning til að geyma ekki of lengi að gera það sem manni finnst mikilvægt og að spara ekki sparistellið, svo nærtæk líking sé notuð.
Sjá einnig: Að segja „seytt rúgbrauð”!
Reyndar er það svo að í árangursmiðuðu samfélagi er hætt við því að fötulistinn sé jafn árangursmiðaður og flest annað sem við tökum okkur fyrir hendur, og snúist um mælanleg afrek af ýmsu taki. Það getur verið að hlaupa maraþon eða hjóla í kring um landið (allt fyrir gott málefni að sjálfsögðu), ganga á fjarlæg fjöll eða fara á hundasleða á norðurpólinn. Ferðalögin eru ofarlega á slíkum listum en þá til framandi slóða og jafnvel hættulegra. Allt eru þetta frábærir og spennandi hlutir að gera á lífsleiðinni sé áhugi og geta fyrir hendi. Eðlislatur kvíðaköggull (undirrituð), hefur hinsvegar lítið með slíkt að gera enda nægilega spennandi og hæfilega erfitt að fara í helgarferð til Kaupmannahafnar eða ganga í gegnum kríuvarp án þess að fara á límingunum.Minn fötulisti snýst þess vegna um ýmislegt sem ég ætla EKKI að gera eða allavega gera heiðarlega tilraun til að draga úr. Fyrir mig getur það verið jafn mikil áskorun eins og fyrir aðra að hlaupa maraþon og snýst um að ná þeim þroska áður en ég geispa minni golu að gera EKKI hluti sem eru mér og öðrum ekki til hagsbóta.
Sjá einnig: Hinn óbærilegi einmanaleiki
Hér koma þeir helstu.
- Ekki ganga í óþægilegum skóm
Ég er með eindæmum stórfætt kona (já nú verður það viðurkennt) og hef alltof oft á æfinni troðið mér í of litla skó af löngun til að ganga í fínu skónum sem kynsystur mínar flestar geta leyft sér. Það er bæði sárt og óhollt og eiginlega fáránlegt. Nú munu tærnar fá að hoppa af hamingju til æviloka í stórum og þægilegum skóm!
- Ekki að þagga niður innsæi og betri vitund
Hversu oft hef ég ekki horft fram hjá tilfinningunni sem varar mig við ýmsu í fari fólks? Það hefur sjaldnast endað vel. Héðan af ætla ég að hlusta á innsæið, það segir mér yfirleitt satt.
- Ekki að drekka vont kaffi
Vont og þunnt kaffi er eiginlega tilgangslaus drykkur, gerir ekkert fyrir mig og er eiginlega verri en að drekka vont vatn. Ég ætla frekar að drekka færri bolla, hafa þá kröftuga með göfugu espressokaffi og sleppa alveg uppáhellingnum gamla en ekki svo góða.
- Ekki að kvarta yfir veðrinu
Það er afskaplega tilgangslaus iðja. Að láta sér líða illa yfir slæmu veðri er eins og að bíta sig aftur og aftur í handlegginn og skilja ekkert í því að það sé óþægilegt. Við höfum val og mitt val er að klæða mig eftir veðrinu og fara út, hvað sem tautar og raular. Hitabylgjur og skógareldar eru heldur ekkert eftirsóknarverð.
- Ekki sleppa tækifærum til að ferðast
Það er hægt að „sitja kyrr á sama stað en samt að vera að ferðast”. Geti maður ekki ferðast í raunheimum þá er hægt að skoða framandi menningarheima á vefmiðlum og í bókum, það er hægt að lifa sig inn í nýjar aðstæður og jafnvel keyra bara til Grenivíkur og fara í sjoppuna. Bara að sitja ekki fastur í eigin hugarheimi- víðsýni er mikilvæg.
- Ekki halda í dauða hluti- elska frekar upplifanir, fólk, dýr og blóm.
Fallegir hlutir skipta okkur flest máli en þeir þurfa ekki endilega að kosta mikið. Með aldrinum læri ég að fegurð hluta tengist oft minningum og upplifunum og fallegur steinn eða skel úr fjörunni geta vakið hughrif sem Ittalavasanum tekst aldrei. Best eru þó „lifandi” lífsgæði- þau sem anda, vaxa og lifa.
- Ekki gera lítið úr eigin tilfinningum
Ég vil ekki lengur stilla upp hjarta og heila sem andstæðingum þar sem heilinn á helst að hafa yfirhöndina. Tilfinningar eru lífið sjálft og því meira sem þær fá að vera uppi á yfirborðinu því meira getum við skoðað þær og þar með haft á þeim þá stjórn sem okkur þykir gott. Þannig sættum við hjartað og heilann.
- Ekki gera lítið úr tilfinningum annarra
Þetta atriði á listanum mínum er oft snúið. Það er einfaldlega ekki þannig að aðrir sjái hlutina sömu augum og ég, við höfum öll mismunandi forsendur og mismunandi tilfinningar. Mig langar mikið að geta séð hlutina frá sjónarhóli annarra eða amk. að muna að sýn annarra er jafn rétthá og mín. Þetta er eitt af erfiðu atriðunum á listanum.
- Ekki láta fram hjá mér fara tækifæri til að verja þá sem minna mega sín
Ég veit að það er eitthvað sem ég mun alltaf sjá eftir ef ég nota ekki mína rödd til að verja þá sem ekki geta það sjálfir. Við erum samfélag og okkur ber að styðja hvort annað, því trúi ég einlæglega.
- Ekki taka þátt í illu umtali og aldrei, aldrei í einelti.
Þrátt fyrir góðan vilja gleymi ég mér á stundum og hneykslast á öðru fólki eða sogast inn í umtal sem er ekki sæmandi. Oft er það til að vera gjaldgeng í umræðum og jafnvel vegna þess að ég óttast viðbrögðin ef ég spyrni við fótum. Illt umtal er oft byrjun á öðru verra s.s. einelti og einelti er baneitrað fyrirbrigði. Það eyðileggur líf fólks og enginn er svo sterkur að hann geti tekist á við hópinn.Ég vil gjarna tala um aðra af skilningi og samhyggð svo lengi sem það er hægt.
Takist mér þetta að einhverju leyti þá stendur mér á sama þótt aðrir hlaupi maraþon, stökkvi fallhlífastökk, klifri á tinda.Minn sigur verður á sjálfri mér og í minni tilveru. Til þess er fötulistinn góð aðferð.
UMMÆLI