NTC

Fornbókabúðin Svartar bækur opnaði dyr sínar í gærÞegar fréttaritara bar að garði í gær var Ren ekki við en Stu sat alsæll við afgreiðsluborðið, enda aftur orðinn umkringdur sínum heittelskuðu fornbókum, eins og sjá má.

Fornbókabúðin Svartar bækur opnaði dyr sínar í gær

Ren og Stu Gates, sem áður ráku Fornbókabúðina Fróða í Listagilinu, opnuðu í gær nýja fornbókabúð í Strandgötu 11b, austan við Ísbúðina. Verslunin ber nafnið Svartar bækur, Fornbókabúð og er opnunartími frá klukkan 12 til 18 alla virka daga.

Þegar fréttaritari leit við seinnipartinn í gær sagði Stu opnunardaginn hafa gengið mjög vel. Hann sagði fastagesti þeirra Ren frá Fróða hafa verið duglega að líta við í nýju búðina, óska þeim til hamingju og að sjálfsögðu versla sér bækur. Ekki vantar upp á úrvalið, því rúmlega þrjátíu þúsund bækur sitja þar á hillum.

Skilja við nafnið en halda í stemminguna

Líkt og Akureyringum er flestum kunnugt heyrir nú ein elsta verslun Akureyrar, Fornbókabúðin Fróði, sögunni til. Verslunin lokaði dyrum sínum í Kaupvangsstræti 19 þann 20. september síðastliðinn, en þar hafði hún verið til húsa í tæp fjörutíu ár.

Síðastliðin fimm ár var Fornbókabúðin Fróði rekin af Ren og Stu Gates. Þeir hjónin eru báðir af bresku bergi brotnir en hafa búið á Akureyri frá því árið 2016. Þegar ljóst varð í sumar að leigusamningur þeirra í Kaupvangsstræti yrði ekki endurnýjaður hófust þeir strax handa við leit að nýju húsnæði undir reksturinn. Það húsnæði fannst að lokum við Strandgötu 11b. Stu segir staðsetninguna henta mjög vel, en þeim þótti mjög mikilvægt að fornbókabúð yrði áfram í miðbænum.

Þann tíma sem Ren og Stu ráku Fornbókabúðina Fróða bar reksturinn alltaf nafnið Svartar bækur, þó verslunin sjálf hafi haldið nafninu Fróði. Í samtali við Akureyri.net á dögunum sögðu þeir að þeim þætti þó ekki rétt að taka nafnið með sér í nýtt húsnæði, enda sé það bundið við gamla húsnæðið og arfleið fyrri eiganda, Olgu Ágústsdóttur.

Svartar bækur er því ný verslun á nýjum stað, en Stu segir þó að markmiðið sé að halda í sömu hlýju tilfinningu og áður ríkti í Fróða. Fréttaritara þykir það hafa tekist með eindæmum vel.

Sambíó

UMMÆLI