NTC

Foreldrar í Síðuhverfi fjölmenna á lögreglustöð – ósáttir við aðgerðaleysi

Foreldrar í Síðuhverfi fjölmenna á lögreglustöð – ósáttir við aðgerðaleysi

Þessi frétt hefur verið uppfærð.

Mikil umræða hefur átt sér stað í Facebook hóp fyrir íbúa Síðuhverfis frá því á laugardagskvöld. Umræðan stafar af færslu frá móður barns á grunnskólaaldri sem býr í hverfinu. Í færslunni, sem nú hefur verið fjarlægð, segir hún frá því að eldra barn á unglingsaldri hafi sveiflað hníf í átt að sínu barni á skólalóð Síðuskóla. Af athugasemdum að dæma virtust hverfisbúar þekkja til eldra barnsins og ganrýndu barnaverndar- og lögregluyfirvöld fyrir að hafa, að þeirra mati, brugðist viðkomandi með því að veita honum ekki þá aðstoð sem hann þyrfti á að halda.

Atvikið olli óhug meðal hverfisbúa og fljótlega var óformlegur foreldrafundur skipulagður á Bláu könnunni, sem fram fór í gær, sunnudag. Á þeim fundi var ákveðið að blása til annars hittings á lögreglustöðinni í dag, mánudaginn 26. ágúst. Skipuleggjendur tóku skýrt fram að ætlunin væri alls ekki að hefja herferð gegn einu barni, heldur að ýta undir mikilvægi þess að börn sem ítrekað eigi hlut í málum sem þessum fái nægilega aðstoð, öryggi allra vegna. Þar að auki hefur avikið leitt í ljós áhyggjur íbúa af auknum hnífaburði á Akureyri almennt, sem og ósætti við aðgerðaleysi yfirvalda í málum sem þessum.

Kaffið leitaði eftir athugasemdum frá lögreglu og barnavernd við vinnslu fréttarinnar. Í svari frá Barnaverndarþjónustu Eyjafjarðar segir að stofnunin tjái sig ekki um einstaka mál, en að mál séu unnin eftir ákveðnu verklagi, í þéttu samstarfi við lögreglu og brugðist verði við málum á viðeigandi hátt. Í svarinu sagði einnig: „Við leggjum áherslu á að foreldrar fylgist með sínum börnum, setji þeim mörk og hafi með þeim eftirlit.“

Svar hefur ekki borist frá lögregluyfirvöldum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó