Akureyri fyrsta „barnvæna sveitarfélag“ UNICEF. Þetta er fyrirsögn á frétt sem birtist á heimasíðu RÚV þann 17 október. Okkur foreldrum barna á leikskólanum Hlíðaból langar til að óska Akureyri til hamingju með að vera fyrsta barnvæna sveitarfélagið UNICEF, enda er þetta verðugt málefni. Barnasáttmálin fjallar m.a. um rétt barna til að lifa mannsæmandi lífi án aðgreiningar og skyldur foreldra að veita þeim aðhald. Í fréttinni um Akureyri eru reyndar engar upplýsingar hvað felst i að vera barnvænt sveitafélag. Það er vonandi ekki mismunun á þjónustu við börn eftir hverfum. Það hefur þó gerst á Akureyri eftir að skólanefnd bæjarins tilkynnti foreldrum leikskólabarna og starfsfólki að loka ætti eina leikskóla Hl íðahverfis, sem afmarkast af Hörgárbraut, Hlíðabraut og Dalsbraut. Eftir lokun hans er engin þjónusta fyrir leikskólabörn i því hverfi. Ástæða lokunarinnar: Færri börn fæðast í hverjum árgangi. Þó er ljóst skv. íbúatölum frá Akureyrarbæ að ekki vanti börn á leikskólaaldri í hverfið:
– Íbúar í Hlíðahverfi: 1.967
– Íbúar yfir 18 ára í Hlíðahverfi: 1.474 (árgangar 1924-1997)
– Börn undir 6 ára í Hlíðahverfi: 143 (árgangar 2011-2016)
Ákvörðun um að loka leikskólanum var algjörlega tekin einhliða – af skólanefnd bæjarins – en í henni sitja : Logi Már Einarsson (S) formaður, Dagný Þóra Baldursdóttir (L) varaformaður, Siguróli Magni Sigurðsson (B), Hanna Dögg Maronsdóttir (D), Preben Jón Pétursson (Æ).
Það hvernig ákvörðun þessi hefur verið tekin og vinnubrögð við hana finnst okkur foreldrum fela í sér mikinn yfirgang af hálfu skólanefndar og ansi gróft að loka eina leikskóla hverfisins án þess að gera ráð fyrir öðrum skóla í hverfinu. Jafnvel hefði bærinn getað opnað einn slíkan til að foreldrar gætu haldið sig innan hverfis með börnin sín í leikskóla. En samkvæmt aðalskipulagi er ekki gert ráð fyrir neinum leikskóla í jafn stóru hverfi og hlíðahverfi er eftir að Hlíðaból lokar.
(http://www.akureyri.is/…/skipulagslysing-breyting-a-adalski…)
Til að reyna að fá einhvern botn í þessa ákvörðun þá sat eitt foreldri barnanna hverfisfund í vor þar sem fulltrúar skipulagsnefndar sátu og nýtt aðalskipulag var kynnt. Þar spurðist viðkomandi fyrir um af hverju ekki væri gert ráð fyrir leikskóla í hverfinu eftir að Hlíðaból lokaði. Í ljós kom að skipulagsnefnd fékk engar upplýsingar um lokunina fyrr en EFTIR að foreldrum leikskólabarna var tilkynnt um þessa ákvörðun sl. vor. Einnig kom fram að hverfisnefnd var ekki tilkynnt um málið. Nefndin frétti af þessari ákvörðun frá foreldri barns á leikskólanum, sem bað formann hverfisnefndar að sitja fund þar sem fulltrúar skólanefndar sætu fyrir svörum. Sem sagt, þá er ljóst að þetta er einhliða ákvörðun skólanefndar án samráðs við einn né neinn, bókstaflega.
Ljóst er að leikskólanum verður lokað, og foreldrar leikskólabarnanna í skólanum vita ekkert í hvorn fótinn á að stíga. Ekkert hefur verið kynnt síðan í vor hvernig eigi að standa að lokuninni, hvaða skólar verði í boði/eiga laus pláss, né nokkuð sem gæti hjálpað foreldrum að geta aðlagast breyttum aðstæðum. Hefði ekki verið nær að vera búinn að koma upp öðrum leikskóla innan hverfisins áður en ákvörðun um lokun Hlíðabóls var tekin? Eins og áður hefur komið fram er Hlíðahverfi ekki barnlaust hverfi, en verður það líklega ef engin þjónusta er í boði fyrir barnafólk. Ein afleiðing af skertri þjónustu við barnafólk gæti mögulega verið sú að hverfið endunýjast ekki. Enda er ekki vænleg sú framtíðarsýn sem við blasir foreldrum 44 leikskólabarna sem nú eru á Hlíðabóli – að þurfa að keyra um bæinn með börnin í leikskóla í annað hverfi. Það er heldur ekki harla umhverfisvænt að þurfa að reiða sig algjörlega á einkabílinn í þeim efnum.
Þess vegna spyrjum við að eftirfarandi: Er hér ekki verið að mismuna börnum og þá barnafjölskyldum eftir hverfum? Af hverju er verið að loka eina skóla hverfisins og senda börnin þvers og kruss um bæinn í önnur hverfi? Með þetta í huga, gæti þá næsta skref hugsanlega verið að loka Glerárskóla vegna dræmrar aðsóknar í skólann? Það væri alveg möguleiki ef hugsað er til framtíðar. Færri börn í hverfinu = ekki þörf á skóla. Hver er svo tilgangurinn með þessu öllu saman? Að drepa heilt hverfi til framtíðar? Er þetta það sem átt er við með “barnvænt sveitarfélag” UNICEF? Eða jafnvel fjölskyldubærinn Akureyri? – Öll lífsins gæði? Leyfi ykkur að meta það sem lesið þennan pistil.
Hins vegar vil ég að lokum vekja athygli á að á Facebook gengur undirskriftalisti sem heitir Tryggjum leikskólaúrræði í Hlíðahverfi þar sem beðið er um að loka ekki skólanum nema að annar leikskóli rísi í hverfinu sem geti tekið við börnunum. Því þó að færri börn fæðist í hverjum árgangi er það aldrei svo að heilt hverfi geti lifað af og endurnýjað sig án barnafólks.
Foreldrar barna á leikskólanum Hlíðaból.
UMMÆLI