Bæjarstjórn Akureyrar hefur lýst yfir óánægju með þau áform SÁÁ að loka göngudeild sinni á Akureyri næstu áramót. Ekkert hefur gengið í viðræðum Akureyrarbæjar við ríkið og SÁÁ um að tryggja starfsemina áfram á Akureyri. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag.
Sjá einnig: Ákvörðun tekin af illri nauðsyn
Bæjarstjórn Akureyrar lagði fram sameiginlega bókun á fundi bæjarstjórnar í gær. Þar eru áformin fordæmt og það sagt óásættanlegt að í þjónustusamningi ríkisins við SÁÁ sé ekki skilgreind nein þjónusta utan höfuðborgarsvæðisins.
„Bæjarstjórn skorar á SÁÁ og ríkisvaldið að bæta úr þessu hið fyrsta og felur bæjarstjóra að ræða við samningsaðila og leita leiða til að koma í veg fyrir að göngudeildin verði lögð niður,“ segir í bókuninni.
Sjá einnig: „Þetta er nagli í kistuna hjá mörgum“
Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir ástandið vera með öllu óþolandi í Facebook færslu í dag.
„Ef heilbrigðisráðherra treystir sér ekki til að fjárfesta árlega 20 milljónum króna í göngudeild SÁÁ á Akureyri, er það býsna skýr vitnisburður um hversu mikilvægt henni finnst að allir landsmenn hafi gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu,” skrifar Logi.
Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri, segir að það sé algjörlega óásættanlegt að göngudeild SÁÁ á Akureyri verði lokað um áramótin.
„Ég hef kafað af miklum eldmóði ofaní þetta mál og verð ég að segja eftir þá vegferð að það sem hefur komið mér lang mest á óvart er viljaleysi bæði SÁÁ og Velferðaráðuneytisins til þess að leita lausna. Báðir aðilar virðast langþreyttir og hundleiðir á hvor öðrum og ég tel engar líkur á því að málið leysist þeirra á milli,” segir Hilda Jana.
Hún er þó ekki reiðubúinn að gefast upp og ekki bæjarstjórn Akureyrar heldur. Nánar er rætt við Hildu Jönu í Fréttablaðinu í dag.
UMMÆLI