Helena Sig, kennsluráðgjafi hjá Kennslu- og Upplýsingatæknimiðstöð HA, KHA, er viðmælandi vikunnar frá Háskólanum á Akureyri hér á Kaffið.is.
- Hvert er hlutverk þitt í HA?
Starfið felst í því að miðla kennslufræði til starfsfólks HA með sérstakri áherslu á sveigjanlegt námsform. Líkt og allir hjá KHA hef ég fullt af hlutverkum, til dæmis ábyrgð á námsumsjónarkerfinu Canvas, þróun á kennsluháttum, umsjón með námskeiði á meistarastigi, stýra Evrópska samstarfsverkefninu CUTIE, þátttaka á ráðstefnum á sviðinu og fylgjast með þróun kennslu á háskólastigi í heiminum, þar á meðal notkun á gervigreind sem er það heitasta í dag.
- Hvenær og hvernig hófst sagan þín í HA?
Saga mín hófst 1998 með grunnnámi í kennarafræði, svo framhaldsnám á nýrri námslínu í menntavísindum með áherslu á menntun og upplýsingatækni 2016-2018. Sumarið 2017 hóf ég störf sem Kennsluráðgjafi KHA og er þar enn.
- Hvernig vinnustaður er HA?
HA er frábær vinnustaður, skemmtilegt samstarfsfólk, jákvæð vinnumenning, uppbyggilegt umhverfi, ásamt því að vera sveigjanlegur, framsækinn og vel staðsettur. Síðan er auðvitað ómetanlegt að hafa yfirmann sem hvetur okkur áfram í að taka þátt í allskonar eins og til dæmis: Landvættinum, mæta í svett og Breathwork – allt til að efla liðsheildina.
- Hvernig finnst þér háskólalífið á Akureyri?
Ef ég horfi út frá sjónarhorni starfsfólks þá er háskólalífið fjölbreytilegt. Háskólinn er lítil eining, það er auðvelt að kynnast fólki persónulega og stemningin er góð.
- Hvaða ráð myndir þú gefa nýnemum sem eru að hefja nám við háskólann?
Gerið ráð fyrir því að háskólanám taki tíma og mikilvægt er að skipuleggja námið í upphafi misseris þannig að vinnuálagið verði ekki yfirþyrmandi. Annars bara njóta þess að afla sér nýrrar þekkingar og leggja sig fram við að kynnast nýju fólki því tengslanetið er lykilatriði að námi loknu.
- Hvað gerir háskólann sérstakan að þínu mati?
Fólkið er það sem skapar skólann, nemendur og starfsfólk. Stærð skólans veitir okkur þann munað að geta átt persónuleg samskipti og þannig náð árangri. Námsformið okkar veitir fjölmörgum nemendum tækifæri á menntun óháð búsetu enda sjáum við að fjölgun nemenda er aðallega í hópi nemenda sem ekki eru staðsettir á Akureyri.
- Hver er uppáhalds staðurinn þinn í HA, af hverju?
Uppáhaldsstaðurinn minn er K-gangur/neðri hæð, þar sem KHA er staðsett – það er aldrei lognmolla að vinna með þessum 14 manna hópi í opnu rými, þvílíkt teymi.
- Þegar þú varst yngri, hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Held ég sé ennþá að reyna að ákveða mig hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór!
- Ef þú værir að velja þér nám við HA í dag, hvaða nám myndir þú velja og hvers vegna?
Hugsa að ég myndi velja mér grunngráðu tengda tækni- eða tölvunarfræði, bæta svo við mig framhaldsnámi í menntavísindum til að fá kennsluréttindi, fara út á vinnumarkaðinn í nokkur ár og taka svo doktorsnám tengt mínu áhugasviði. Ástæðan fyrir þessu vali er sú að ég tel mikilvægt að blanda fræðum og praktík saman til að auka persónulegan þroska og til að efla tengingu fræðasamfélagsins við atvinnulífið.
- Hvernig er kaffið í HA?
Ég er algjör nýgræðingur í kaffidrykkju, byrjaði að drekka kaffi í El-Salvador í mars á þessu ári. Ég er því ennþá með margar sérþarfir sem þarfnast heima- eða kaffihúsagerðs kaffibolla, hlakka til þegar ég get farið að njóta kaffisins innan HA.
UMMÆLI