Fólk á að covida beturSigríður Jóhanna Jósepsdóttir skrifar:

Fólk á að covida betur

Ég legg það nú ekki í vana minn, frekar en fyrri daginn, að skrifa í fjölmiðla, hef raunar bara einu sinni gerst svo fræg og það var einmitt hér á síðum kaffið.is í fyrra og þá um hræðilegan yfirgang hjólreiðamanns í minn garð. Oft var þörf, en nú er nauðsyn! Sjaldan hefur önnur eins vá og þessi Kórónaplága steðjað að íslensku þjóðinni – raunar engin fordæmi fyrir öðru eins. Af hverju í ósköpunum tók svona langan tíma að loka landinu? Eða í það minnsta að meina fólki frá sýktum svæðum eins og Íran og Ítalíu að koma hingað? Tala nú ekki um Kínverja – sem þar að auki kaupa fátt og eyðileggja hraðsuðukatla með því að sjóða mat og nærföt í þeim, hver bauð þeim? Ég hef t.a.m. öruggar heimildir fyrir því að þessi veira varð til þegar leðurblaka var soðin í hraðsuðukatli. Ekki veit ég hvort að nærföt hafi verið þar með líka en það hefði átt að fyrir löngu síðan banna aðgang að hraðsuðukötlum á hótelum.

Barnabörnin eru lafhrædd yfir öllum þessum fréttum sem ég les fyrir þau. Hverju eiga þau að trúa? Svo eru upplýsingarnar svo misvísandi. Sumir segja að aðeins gamalmenni og þeir sem eru veikir deyji af völdum vírusins og tala um það eins og það sé bara eðlilegt og sjálfsagt mál. Ég er eldri kona með heilsubrest og ég get bara ekki liðið það að einhverjir skíðaplebbar komi hingað hóstandi til landsins og finnist það svo bara sanngjarn fórnarkostnaður að ég láti lífið í staðinn! Það finnst mér bara alls ekki sanngjörn skipti. Eða fólk á mínum aldri sem marinerar sig einhverja mánuði á ári í sólarstíunni Tenerife og flýr nú heim úr hitanum og þá auðvitað með veiruna með sér. Þegar í harðbakkann slær þá snúa allir grenjandi heim aftur og við skattborgar sitjum uppi með kostnaðinn og sóttkvíarstatusana á Fasbókinni.

Svo veit maður ekkert hverju maður á að trúa, er nóg að vera með grímurnar? Ég hef sofið með grímu síðustu tvær nætur, því ég veit ekkert hvaða lið þetta er sem að Guðmundur maðurinn minn er að hitta yfir daginn. Hann fer í Byko og á allskonar staði. Svo þegar ég sá að læknar væru farnir að raka sig þá lét ég mitt ekki eftir liggja og rakaði Guðmund meðan hann svaf og sprittaði vel á eftir. Hann var auðvitað ekki ánægður og vildi meina að ég hefði eyðilagt fyrir sér mottumars, en hér eru almannahagsmunir í húfi og ekkert hægt að hlusta á svoleiðis. Ég rakaði líka af honum hárið og hann getur þakkað fyrir það, enda útséð með að hann komist í klippingu næstu vikurnar.

Ég eins og aðrir fer ekki varhluta af sóttkvíðanum og reyni að una mér vel í sjálfskipaðri einangrun. Hér eru engir hraðsuðukatlar og hingað fær enginn að koma, aldrei er nú of varlega farið. Hugsum fallega hvert til annars og hendið einhverju í sendlana úr Nettó ef þeir koma of nærri dyrunum. Öðruvísi læra þeir ekki!

Virðingarfyllst

Sigríður Jóhanna Jósepsdóttir

Tengdir pistlar:

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó