NTC

Fögnum nýjum lausnum í umhverfismálum

Fögnum nýjum lausnum í umhverfismálum

Brynja Hlíf Þorsteinsdóttir skrifar:

Mikilvægi þess að hugsa vel um umhverfið verður alltaf augljósara. Við viljum bjóða framtíðar kynslóðum Akureyringa upp á heilnæmt og gott umhverfi sem við höfum staðið vörð um. Til þess þarf hugarfarsbreytingu. Látum þægindin ekki verða okkur að falli.

Breytingar á lögum til að minnka urðun og brennslu á óflokkuðu heimilissorpi taka gildi um næstu áramót. Við getum auðveldlega bætt okkur þarna. Fyrsta skref til að minnka rusl er að hætta að nota einnota vörur. Fyrir ekki svo löngu síðan voru fjölnota innkaupapokar fáséðir í samfélaginu, núna eiga og nota flestir svona poka. Ég hugsa að þekkingarleysi sé oft á tíðum ástæða þess að ekki séu farnar umhverfisvænustu leiðirnar bæði á heimilum og í fyrirtækjum. Við verðum að efla upplýsingagjöf í þessum málum og kynna fyrir bæjarbúum allt það sem er í boði. 

Með lagabreytingunni þurfa sveitarfélögin að breyta sorphirðu heimilanna. Akureyri hefur verið leiðandi í flokkun á sorpi síðustu ár, sér í lagi vegna flokkunar á lífrænum úrgangi frá heimilum. Frá næstu áramótum þurfa sveitarfélög að bjóða upp á viðameiri flokkun við heimilin en áður hefur tíðkast. Akureyringar hafa t.d. verið að borga fyrir leigu á sérstakri endurvinnslutunnu ef þeir vilja flokka við heimilið. Þarna verður breyting á og öll heimili munu fá flokkunartunnur til þess að flokka pappír og pappa, plast og lífrænan úrgang. Grenndargámarnir verða enn til staðar og taka á móti gleri, málmum og textíl. Ekki verður heimilt að brenna eða urða flokkanlegan úrgang samkvæmt þessum lögum. 

Engin samræming er á flokkun sorps á landinu núna. Akureyringar sem ferðast til höfuðborgarinnar finna ekki lífrænu tunnuna og höfuðborgarbúar á ferðalagi klóra sér í höfðinu yfir öllum sorptunnunum sem við notum hér á Akureyri. Með þessari breytingu gefst tækifæri fyrir sveitarfélög landsins til að samræma flokkun og sorphirðu á landsvísu. Þetta er vinna sem er rétt farin af stað svo það er enn þónokkur tími þar til bæjarbúar finna fyrir breytingunni. 

Eins og fram hefur komið þá verður ekki heimilt að brenna eða urða flokkanlegan úrgang -það verður ólöglegt. Ein leið sem sveitarfélögin geta farið til að koma í veg fyrir að flokkanlegi úrgangurinn rati í óflokkanlegu tunnuna er að rukka sérstaklega fyrir sorphirðu á óflokkuðu sorpi eftir vigt. Fyrir flesta þá verður þetta ekkert vandamál, það endar ekki mikið í þessari tunnu ef við flokkum rétt. En fyrir fjölskyldur með ung bleyjubörn þá verður þetta einhver aukakostnaður. Það er ekki hægt að flokka einnota bleyjur. Þyngdin á notuðum einnota bleyjum er gríðarleg og kostnaður við að henda þessari nauðsynjavöru er ekki ábætandi þegar fólk er að stækka fjölskylduna. Fyrir utan það að bleyjurnar sjálfar kosta nógu mikið. En hvað er til ráða? Hvernig getum við komið til móts við þennan mikilvæga hóp? Við þurfum ekki að finna upp hjólið. Við getum hvatt til notkunar á fjölnota taubleyjum með taubleyjustyrk. Bæjarfélög víðsvegar um heiminn hafa verið að gera þetta og styrkja fjölskyldur við kaup á taubleyjum. Akureyri gæti orðið fyrst bæjarfélaga á landinu til að fara þessa leið.

Hvert barn notar í kringum 2.200 einnota bleyjur á ári og allar enda þær í urðun. Árið 2021 fæddist 491 barn á Akureyri. Ef öll þessi börn nota einnota bleyjur þá fara 1.080.200 bleyjur í urðun á fyrsta ári þessara barna. Það tekur bleyjurnar langan tíma að eyðast upp og hver einasta bleyja sem hefur verið notuð er ennþá til í náttúrunni okkar. Það eru til mjög notendavænar og flottar nútíma taubleyjur sem hægt er að nota í staðinn. Við verðum að kynna fyrir nýjum foreldrum þennan umhverfisvæna kost. Það væri gott ef allt starfsfólk leikskólanna á Akureyri fengi viðeigandi fræðslu og verklagsreglur varðandi notkun á taubleyjum. Það verður að vera sjálfsagt mál að taka á móti taubleyju-börnum á leikskólum bæjarins.

Með því að gera Akureyri að taubleyjuvænni bæ og bjóða uppá styrk til að auðvelda og hvetja foreldra til að fara ,,taubleyjuleiðina“ þá komum við í veg fyrir vandamál barnafjölskyldna þegar og ef það verður farið að rukka fyrir óflokkaða sorpið. Og Akureyri heldur áfram að vera leiðandi í umhverfismálum!

Ég þekki af eigin raun hvað einnota bleyjur eru þungt og mikið rusl. Ég ákvað þegar dóttir mín var 3 mánaða að skipta yfir í taubleyjur og nota þær enn níu mánuðum seinna. Taubleyjurnar eru líka heilsusamlegri fyrir litla bossa.

Brynja Hlíf er í 5. sæti á lista L-listans fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó