NTC

Fögnuðu 35 ára afmæli Krógabóls

Fögnuðu 35 ára afmæli Krógabóls

Þann 19. júní stíðastliðinn var blásið til afmælisveislu á leikskólanum Krógabóli. Þá voru 35 ár liðin frá því að leikskólinn tók til starfa í Glerárkirkju.

„Leikskólinn Krógaból tók til starfa 19. júní 1986 að Löngumýri 16 og var í fyrstu rekinn af foreldrum. Í ágúst 1989 flutti leikskólinn í Glerárkirkju, í hluta af núverandi húsnæði, og tók Akureyrarbær við rekstrinum ári síðar. Krógaból var stækkað sumarið 1994 og var leikskólinn sameinaður Sunnubóli sem hafði verið starfrækt í einbýlishúsi í Sunnuhlíð frá 1988. Þá varð til leikskóli með rými fyrir allt að 72 börn. Árið 2001 var leikskólinn stækkaður aftur og varð þá til fimm deilda leikskóli fyrir um 100 börn,“ segir um Krógaból á vef Akureyrarbæjar.

Krógaból er heilsuleikskóli sem leggur áherslu á lífsleikni, málrækt og sköpun í daglegu starfi. Stefna Krógabóls er að börnin tileinki sér lífsleikni í gegnum allt nám leikskólans. Lífsleikni byggist á alhliða þroska, færni til samskipta og virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfinu. Lögð er áhersla á að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á hreyfingu, næringu og lífsgleði í leik og starfi.

„Í Krógabóli vinnur frábært og reynslumikið starfsfólk. Sem dæmi má nefna að Anna R. Árnadóttir hefur verið skólastjóri í 32 ár og eru margir kennarar með 10 ára starfsreynslu og nokkrir með yfir 20 ára starfsreynslu. Í tilefni afmælisins bjuggu kennarar til alls konar þrautir, smíðuðu strætó, bílabrautir og fleira börnunum til mikillar gleði. Vatn var látið fljóta og mátti sulla og mála að vild. Sannkallaður gleðidagur – enda ánægjuleg tímamót sem ber að fagna,“ segir í tilkynningu Akureyrarbæjar.

Á vef Akureyrarbæjar má finna skemmtilegar myndir frá afmælisveislunni á skólalóðinni

Sambíó

UMMÆLI