Flutti 14 ára út til að elta drauminn – „Ef þú ert ekki tilbúin að fórna því venjulega þá verður þú að sætta þig við það eðlilega.“María Finnbogadóttir ásamt Skúla Braga Magnússyni, sjónvarpsmanni á N4 og stjórnanda Taktíkinnar.

Flutti 14 ára út til að elta drauminn – „Ef þú ert ekki tilbúin að fórna því venjulega þá verður þú að sætta þig við það eðlilega.“

María Finnbogadóttir flutti 14 ára út til Austurríkis til þess að elta draum sinn um að ná langt í skíðaíþróttinni. María var stödd hér á landi á dögunum og var gestur í þættinum Taktíkin á N4. María er með skýr markmið um að ná langt í skíðaíþróttinni, en leiðin á toppinn er ekki alltaf bein og það að vera afreksíþróttamaður felur í sér ýmsar fórnir.

Íslandsmeistari í svigi

María fæddist í Norður Þýskalandi en flutti tveggja ára gömul til Íslands. Þar bjó hún á Akureyri í 8 átta ár og Sauðárkróki í 4 ár, áður en hún flutti út til Austurríkis árið 2014, þá fjórtán ára gömul. Hún keppir aðallega í svigi og stórsvigi en hefur einnig keppt í bruni, risasvigi og samhliðasvigi. Á þessu ári gerði hún sér lítið fyrir og sigraði bæði í flokki 18-20 ára stúlkna og fullorðinsflokki kvenna á skíðamóti Íslands sem fram fór í Böggvisstaðafjalli við Dalvík. Þar keppti hún fyrir skíðadeild Tindastóls, sem var með sigrinum að eignast sinn fyrsta Íslandsmeistara í Alpagreinum.

Fór 14 ára út

„Stefnan var alltaf að fara út einhverntímann. Ég átti líka frænku í heimsbikarnum og mig langaði alltaf að stefna þangað. Síðan rekumst við á það fyrir tilviljun á netinu að það sé hægt að fara út 14 ára í skíðamenntaskóla. Um leið setti ég markmiðið þangað. Að fara út sem fyrst, byrja að æfa og taka þetta skref í átt að því að verða ennþá betri. Ég hef verið svona 11-12 ára gömul þegar að ég setti mér þetta markmið að fara út þetta ung. Mamma var ekki alveg sammála því fyrst, en ég varð staðráðin í að keyra á þetta og það komst ekkert annað að í hausnum á mér,“ sagði María í viðtali í Taktíkinni

Erfiður biti að kyngja

Það er eitt að vera góður á skíðum á íslenskan mælikvarða og svo allt annað að verða góður á heimsvísu. Austurríki er þekkt fyrir mikla og öfluga skíðamenningu og María var fljót að reka sig á það að samkeppnin úti var mikið meiri en hérna heima. „Þarna úti eru ótrúlega margir að æfa og ótrúlega margir góðir. Hérna heima vorum við kannski 15-20 og þá var mikið auðveldara að lenda í betra sæti, jafnvel þótt maður ætti kannski ekki sinn besta dag. Þegar að ég kom út sá ég fyrir mér að ég myndi vera að lenda hópi 10 bestu, en síðan var það bara alls ekki þannig til að byrja með. Það var ótrúlega erfiður biti að kyngja. Að halda að maður sé betri en maður er og þurfa að byggja sig hægt og rólega upp. Þetta tekur bara tíma,“ sagði María.

Árangur kemur ekki að sjálfu sér

María lærði það úti að það eru margir með sömu markmið og hún um að ná langt í íþróttinni og það eru sömuleiðis margir sem eru tilbúnir að leggja mikið á sig til þess að ná því markmiði. „Það er ekki hægt að koma bara alltaf heim eftir æfingar og hugsa, jæja þetta var góð æfing í dag og ég ætla að gera það sama á morgun. Maður þarf líka að borða vel, sofa vel og pæla í því sem maður er að gera á æfingum. Ég er með bækur þar sem ég skrifa niður í hvern einasta dag hvað ég fór margar ferðir, hvað var gott í hverri ferð og hvað hefði ég getað gert betur. Voru einhver mistök, þarf ég að brýna skíðin mín öðruvísi og hvað get ég gert til þess að bæta þau atriði sem fara ekki eins og ég hefði viljað. Með þessu hef ég yfirsýn yfir hverja æfingu og get séð hvað ég þarf að gera betur á næstu æfingu. Ég hef líka lært það að ég get ekki bara verið með einhvern tékklista og merkt í boxin, því þetta snýst um svo miklu meira en það. Þeir bestu í heimi, sama í hvaða íþrótt það er, vinna ótrúlega hart að því á hverjum degi,“ sagði María.

Allir að keppa að því sama

„Í svona skíðamenntaskóla eins og ég er í eru allir með sama markmið um að verða bestir í heimi. Þá fer þetta að snúast um hluti eins og, er ég að sofa betur, borða betur og get ég orðið betri en herbergisfélagi minn í hinum og þessum smáatriðum? Þegar maður er að keppa við einstaklinga sem eru jafn óðir og maður sjálfur í að ná einhverju markmiði þá verður maður að reyna að ná forskoti einhversstaðar og það getur leynst hvar sem er. Maður þarf að keppa að því á hverjum einasta degi og hugsa útí hluti eins og á ég að fá mér snakk núna eða ekki? Ég á samt alveg vinkonur úti og auðvitað samgleðst ég þeim þegar að þeim gengur vel. En þetta er auðvitað dálítið fín lína þegar að maður er með þetta keppnisskap og er stöðugt að hugsa um að ná forskoti á hina,“ sagði María og bætti síðan við að þótt þetta væri vissulega á tímum erfitt andrúmsloft þá er þetta einmitt það sem þarf til þess að ýta henni áfram í að verða betri.

Stefni á að verða best í heimi

„Ég set miða útúm allt í íbúðinni minni og bílnum mínum. Þannig að ef ég er eitthvað þung eða ekki í góðu skapi þá geri ég nýjan miða og hengi hann upp þannig að ég get ekki hundsað hann. Á einum af þessum miðum stendur t.d. „ef þú ert ekki tilbúin að fórna því venjulega þá verður þú að sætta þig við það eðlilega.“ og mig langar ekki að sætta mig við það. Þannig að þegar að ég sé þessa miða og þessi markmið þá drífur það mig áfram. Ég hef líka lært það að maður má ekki setja sér markmið þar sem maður annaðhvort nær þeim eða maður deyr. Á sama tíma þá má maður ekki setja tappa á markmiðin sín afþví að það er allt hægt ef maður er tilbúinn að leggja vinnuna á sig. Ég trúi því núna að ég geri allt sem í mínu valdi stendur, held áfram að þróa áfram mína hæfileika og nýja og ef allt smellur saman þá get ég orðið best í heimi. En ef ég geri það ekki þá á ég ekki séns á því,“ sagði María að lokum.

Allt viðtalið má finna í Taktíkinni á www.n4.is og á Facebooksíðunni N4 Sjónvarp

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó