Flugslysaæfing á Akureyrarflugvelli

Flugslysaæfing á Akureyrarflugvelli

Fjölmenni var á flugslysaæfingu Almannavarna og Isavia á Akureyrarflugvelli í gær. Um 250 manns tóku þátt í æfingunni sem er sú fjórða sem haldin er á flugvöllum landsins í ár. 

Æfingin byggði á flugslysaáætlun Akureyrarflugvallar og þátttakendur í henni voru frá öllum viðbragðsaðilum á svæðinu í kring. Starfsfólk Isavia Innanlandsflugvalla á Akureyrarflugvelli æfðu viðbúnað sinn sem og fulltrúar almannavarna, lögreglu, björgunarsveita, Rauða krossins; Landhelgisgæslunnar og Sjúkrahúsið á Akureyri ásamt Heilbrigðisstofnun Norðurlands tóku einnig þátt. Aðgerðastjórn á Akureyri var við stjórn aðgerðarinnar ásamt því að Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var að störfum en í stórum aðgerðum skiptir m.a. samhæfing í heilbrigðiskerfinu á landsvísu veigamiklu hlutverki.  

Líkt var eftir að farþegaflugvél hafði bilað og þegar hún kom inn til lendingar var önnur vél á brautinni sem hún rekst á. Björgunar- og slökkviaðgerðir voru æfðar sem og flokkun og  björgun slasaðra á vettvangi og á söfnunarsvæði slasaðra á flugvellinum. Áhersla var lögð á flutning slasaðra, boðunarkerfi, stjórnun á vettvangi, samhæfingu og fjarskipti svo eitthvað sé nefnt. 

„Flugslysaæfingar eins og þessi sem haldin var í gær og þær sem við höfum haldið í Reykjavík og á Ísafirði fyrir nokkrum vikum skipta afskaplega miklu til að efla viðbúnað við flugslysum og hverjum öðrum alvarlegum slysum sem geta orðið í nærsamfélagi hvers flugvallar,“ segir Elva Tryggvadóttir, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia og æfingastjóri. „Við hjá Isavia og Almannavörnum höfum lagt áherslu á að þessar æfingar líki sem best eftir þeim aðstæðum sem geta skapast þannig að viðbragðsaðilar fái að reyna sig í því sem mætti teljast nálægt þeim aðstæðum sem geta skapast þegar hættu ber að höndum. Þetta gagnast okkur, Almannavörnum og öllum þeim öflugu viðbragðsaðilum sem tóku þátt í æfingunni í dag. 

Um 50 sjálfboðaliðar tóku þátt sem leikarar í æfingunni á Akureyrarflugvelli og léku slasaða farþega og áhöfn á vettvangi. „Það væri ekki hægt að halda æfingarnar með svona góðum hætti ef ekki væri fyrir þann hóp fólks sem er tilbúinn til að gefa af sínum tíma og leika slasað fólk á vettvangi,“ segir Elva. „Þessum hópum eigum við mikið að þakka“. 

Æfingin á Akureyri er sú fjórða og síðasta sem haldin er á þessu ári. Fyrsta æfingin í ár var haldin á Þórshafnarflugvelli 30. apríl. Sú næsta var á Ísafjarðarflugvelli 24. september og síðan var æfing á Reykjavíkurflugvelli fyrir hálfum mánuði. Árið 2023 verða æfingar á Bíldudalsflugvelli, Vopnafirði, Húsavík og Egilsstöðum.  

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó