Eyfirðingar kannast eflaust margir við Margréti Bjarnadóttur, en undanfarinn áratug hefur hún haldið uppi flóamarkaði í skemmu í Sigluvík. Reyndar hefur hún haldið Flóamarkaði undanfarin sextán sumur í röð, en fyrstu árin var hann í bílskúrnum heima hjá henni í Dæli í Fnjóskadal.
Skemman sem hefur hýst þennan frækna markað undanfarin tíu ár er í eigu bróður hennar, sem er bóndi á Svalbarði og nýtir jörðina.
Markaðurinn er einhverstaðar mitt á milli áhugamáls og atvinnu fyrir Margréti: “Ég passa að vera ekki að tapa á þessu, en ég hef nú ekki farið út í að reikna mér tímakaup, það væri nú eitthvað lítið,” segir Margrét létt í lund. Að reka flóamarkað er nefnilega meiri vinna en marga eflaust grunar. Það þarf að vinna þar á opnunartíma, en þar að auki fer mikill tími í að raða upp vörunum, verðleggja, halda hreinu og snyrtilegu og útvega vörur.
Ýmsa fjársjóði er að finna á markaðinum en vörurnar koma alls staðar að. Margrét finnur vörurnar á öðrum mörkuðum og í dánarbúum, en einnig færir fólk henni hluti sem það myndi ekki nýta sjálft. Margrét segist hafa mjög gaman af gömlum hlutum og hún hefur ástríðu fyrir því að hlutir séu endurnýttir, frekar en að þeim sé hent eða safni ryki í geymslum og háaloftum.
Opnunartíma og aðrar upplýsingar er hægt að finna á Facebook síðu markaðsins: Flóamarkaðurinn í Sigluvík
UMMÆLI