Fleiri karlar sækja í hjúkrunarfræðiFjölgun karla í hjúkrunarfræði er að mati flestra á fræðisviðinu mikið fagnaðarerindi. Ljósmynd: Háskólinn á Akureyri

Fleiri karlar sækja í hjúkrunarfræði

Í ár innritaðist metfjöldi karla í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri og við Háskóla Íslands. Tuttugu og sex karlkyns umsækjendur sóttu um námið og innrituðust, sem þýðir að karlar eru tæplega 8% nýnema í hjúkrunarfæði í ár. Árin 2021 og 2022 var hlutfall karla sem innrituðust í hjúkrunarfræði 4,3% og 6,3% og því er ljóst að áhugi karla á náminu er að aukast.

Hlutfall brautskráðra karlkyns hjúkrunarfræðinga við HA er 2,7%, sem er í takt við hlutfall íslenskra hjúkrunarfræðinga sem eru karlkyns (um 2%). Árið 2022 hækkaði hlutfall brautskráðra karla með BS-próf í hjúkrunarfræði í tæp 4% við HA og tæp 3% við HÍ. Nú í ár eru karlar brautskráðir með BS-próf í hjúkrun 6,5% í HA og 4,2% í HÍ. Síðustu ár hafa fleiri karlar verið að sækja í hjúkrunarfræði. Árið 2018 innrituðust tveir karlar í hjúkrunarfræði við HA og árið 2019 innrituðust átta karlar, og þrír þeirra brautskráðust sem hjúkrunarfræðingar þann 10. júní síðastliðinn.

Gísli Kort Kristófersson, prófessor við Hjúkrunarfræðideild HA, hefur leitt og tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum sem snúa að því að fjölga körlum í hjúkrunarfræði. Þar ber meðal annars að nefna samnorrænt verkefni þar sem meðal annars voru þróaðar leiðbeiningar og gagnreyndar aðferðir til að auka hlut karla innan hjúkrunar á Norðurlöndum og viðhalda þeim fjölda sem nú þegar hefur menntað sig til starfsins. Það verkefni er hugsað sem lykill að langtímabreytingum, ekki sem átaksverkefni. Sem liður í verkefninu var gefinn út bæklingur um hverju ber að huga að til fjölga körlum í hjúkrunarfræðinámi.

Þá hafa bæði Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands tekið virkan þátt í samvinnuverkefninu Strákar og hjúkrun, sem miðar að því að vekja áhuga drengja á hjúkrunarfræði, breyta staðalímyndum og fjölga körlum sem leggja fyrir sig hjúkrunarstörf. Einn þáttur þessa verkefnis er að grunnskóladrengjum er boðið í heimsókn í háskólann þar sem þeir fá lifandi, raunhæfa og skemmtilega kynningu á fjölbreyttum störfum hjúkrunarfræðinga.

,,Engar rannsóknir sem ég hef fundið benda til þess að það séu verk innan hjúkrunarfræðinnar sem henta betur konum en körlum og öfugt. Þetta er langtímaverkefni og ég tel að sú fjölgun meðal karla sem við erum loksins farin að sjá sé afrakstur fjölbreyttra verkefna og vinnu sem við höfum langt áherslu á lengi,” segir Gísli.

Mikilvægt að sofna ekki á verðinum

Jórmundur Kristinsson brautskráðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskólanum á Akureyri 10. júní síðastliðinn. „Mér finnst frábært að vera karlmaður í hjúkrun. Fólk sýnir því mikinn áhuga þegar það sér karla í hjúkrun. Manni er hrósað og það eru allir svo sammála um að það þurfi að fjölga karlmönnum í stéttinni. Hjúkrun er svo ótrúlega fjölbreytt starf og það opnast ótal dyr og endalausir starfsmöguleikar að námi loknu svo ekki sé nú talað um starfsöryggið þegar maður er menntaður hjúkrunarfræðingur,“ segir Jórmundur.

Jórmundur er ánægður með námið: „HA stendur sig vel í að hugsa um alla stúdenta og þá sérstaklega okkur sem erum karlkyns. Það er mikið talað um öráreiti í gegnum námið og hvernig litlir hlutir eins og að ávarpa hópinn sem stúlkur getur haft áhrif á upplifun karla af náminu. Auðvitað tók ég eftir því að hópurinn væri oft ávarpaður á þann máta og það verður þreytt með tímanum en maður veit líka að það tekur tíma að þróa og breyta orðræðu. Einnig hafa móttökur og aðstæður í verknámi áhrif. Það er til dæmis mjög algengt að karlar í hjúkrunarfræði þurfi að skipta um föt inni í kústaskápum eða inni á baði vegna þess að það er bara gert ráð fyrir búningaaðstöðu fyrir konur. Ég tel orðræðuna vera á réttri leið en þetta eru þeir þættir sem þarf að breyta og það er mikilvægt að sofna ekki á verðinum, því svona litlir hlutir geta haft neikvæð áhrif og fælt frá,“ segir Jórmundur.

Hjúkrunarfræði mjög vinsæl við Háskólann á Akureyri

Háskólanum á Akureyri barst 251 umsókn í hjúkrunarfræði fyrir haustmisseri 2023 en aðeins 75 stúdentar öðlast rétt til náms á vormisseri að loknum samkeppnisprófum sem haldin eru við lok haustmisseris. Til samanburðar bárust Háskóla Íslands 180 umsóknir í hjúkrunarfræði en þar komast 120 stúdentar áfram á vormisseri að loknum samkeppnisprófum. „Þetta er metfjöldi umsókna síðan árið 2019 þegar okkur bárust 302 umsóknir. Síðan þá hafa umsóknir alltaf verið yfir 200 og er afar ánægjulegt að sjá þennan mikla áhuga á náminu. Áhuginn staðfestir að við erum að vinna gott starf og að stúdentar okkar eru ánægðir,“ segir Gísli Kort Kristófersson, prófessor við Hjúkrunarfræðideild HA.

„Að sjálfsögðu væri óskandi að geta boðið fleirum námspláss að loknum samkeppnisprófum en það eru ýmsir þættir sem hafa þar áhrif. Okkar stærstu hamlandi þættir hvað það varðar er annars vegar skortur á klínískum námsplássum og svo mönnun kennara,“ segir Gísli. 

Jórmundur valdi Háskólann á Akureyri vegna sveigjanlega námsfyrirkomulagsins og vegna þess sem hann hafði heyrt og aflað sér upplýsinga um. „Kennararnir eru með mjög nútímalega nálgun í náminu, sem er mikilvægt, auk þess sem við fáum gott andrými til þess að njóta okkar í verknámi, sem ég tel nauðsynlegt, en það er meðal annars gert með því að við þurftum ekki að vera að skila endalaust af verkefnum á meðan verknámi stóð. Þá hafði ég einnig heyrt mjög góða hluti um klíníska færni hjúkrunarfræðinga frá HA, sem skipti mig miklu máli,“ segir Jórmundur að lokum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó