Dagana 24.-29. apríl ætla sex nemendur í Flautusamspili Tónlistarskólans á Akureyri og einn píanónemandi að fara til Frakklands í tónleika- og menningarferð.
Kennararnir Petrea Óskarsdóttir (flauta) og Þórarinn Stefánsson (píanó) hafa undirbúið nemendurna fyrir tónleikana og verða fararstjórar í ferðinni.
Tilefni ferðarinnar er að hér er um einstakan hóp að ræða, sjaldan er svo stór hópur framhaldsnemenda í flautusamspili skólans. Þær hafa spilað saman síðastliðin fjögur ár og næsta vor skilja leiðir vegna háskólanáms. Ferðin á að vera hvatning, menningarupplifun og tónleikaferð þar sem kynning á íslenskri flaututónlist verður í fyrirrúmi.
Petrea bjó í þrjú ár (1990-1993) í París, og stundaði nám í flautuleik í Conservatoire National í Versölum, og langar þess vegna að ferðast með nemendurna til Frakklands.
Það má segja að ævintýrið hefjist miðvikudaginn 9. apríl en þá heldur hópurinn tónleika með allri efnisskránni í Akureyrarkirkju kl 18:00. Mánudaginn 14. apríl verða síðan tónleikar í Hólaneskirkju á Skagaströnd kl 20:00. Fimmtudaginn 24. apríl verður flogið til Parísar og haldið beint til Normandie þar sem dvalið verður fyrstu dagana. Í Normandie verða tvennir tónleikar, þeir fyrri verða í samstarfi við þjóðlagahópinn Tradimardi föstudagskvöldið 25. apríl í Le CANA í Creully og seinni tónleikarnir verða þann 26. apríl í Notre-Dame-D´Estrées kirkjunni í útjaðri Caen. Ferðinni lýkur svo í París þar sem lokatónleikarnir verða í Auditorium í Conservatoire de 18 arrondissement de Paris þann 28. apríl í samvinnu við flautukennara skólans.
Nemendurnir eru á aldrinum 16-20 ára og koma frá Patreksfirði, Hrútafirði, Skagaströnd, Hofsósi og Eyjafirði.
Flestar komu í Tónlistarskólann á Akureyri um leið og þær hófu nám í Menntaskólanum á Akureyri og hafa æft saman síðastliðin fjögur ár. Þær hafa komið saman fram á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, leikið á Barnamenningarhátíðinni á Akureyri og Barnamenningarhátíðinni í Reykjavík.
Efnisskrá tónleikanna inniheldur þekkt klassísk verk en að stórum hluta íslensk samleikverk fyrir allt að sex flautur og píanó eftir tónskáldin Atla Heimi Sveinsson, Þorkel Sigurbjörnsson, John Speight, Báru Grímsdóttur og auk þess píanóverk eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson.
Tónleikarnir verða um fjörtíu til fjörtíu og fimm mínútna langir án hlés.