Alls eru nú fjórir í einangrun á Norðurlandi eystra vegna Covid-19. 60 einstaklingar eru í sóttkví á svæðinu samkvæmt tölum á covid.is.
Á meðal smitaðra er ferðamaður sem greindist jákvæður í fyrradag eftir niðurstöðu úr seinni skimun. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu lögreglunnar á Norðurlandi eystra á Facebook.
Þar segir: ,,Lífið heldur áfram í góða veðrinu hér norðan heiða og glíman við COVID vágestinn sömuleiðis. Góðu fréttirnar eru að það hafa ekki verið að greinast mörg smit undanfarna daga, þannig að það er a.m.k. ekki eins brött uppsveifla eins og var í fyrstu bylgju. Sóttvarnarlæknir hefur því ekki lagt til hertar aðgerðir hér innanlands að svo komnu. Tilhögun skimunar á landamærum er þó í endurskoðun og heilbrigðisráðherra gefur væntanlega út nýjar reglur í dag eða morgun. Í okkar umdæmi eru nú 4 í einangrun og 66 í sóttkví. Einn ferðamaður greindist jákvæður í fyrradag en það var niðurstaða úr seinni skimun sem leiddi það í ljós. Samferðamenn hans hafa verið settir í sóttkví.
Hvað okkur varðar þá erum við mikið að heimsækja verslanir og þjónustufyrirtæki til að fylgja því eftir að 100 manna hámarkið og 2ja metra reglan sé virt. Þetta er í flestum tilvikum í góðu lagi þótt sums staðar hafi þurft að bæta úr. Við viljum endilega minna ykkur á að 2ja metra reglan gildir líka í sundlaugum, á börum og á líkamsræktarstöðum. Sýnum ábyrga hegðun, pössum okkur og sýnum fólkinu í kring um okkur þá kurteisi að virða 2ja metra regluna. Munum eftir persónulegu vörnunum, handþvotti og sprittun. Veiran er enn í samfélaginu og bíður færis að komast í okkur!”
UMMÆLI