Laugardaginn 5. október kl. 15 verða fjórar sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri:
Björg Eiríksdóttir – Fjölröddun
Halldóra Helgadóttir – Verkafólk
Knut Eckstein – „ég hefenganáhuga á nokkrusemerstærraen lífið“
Samsýning – Síðasta Thule
Á opnun flytur sönghópurinn Arctic Opera tónlist frá endurreisnartímabilinu og Bruno Aloi (formaður ICCC) og Finnur Friðriksson (dósent við HA) flytja erindi.
Björg Eiríksdóttir – Fjölröddun.
Björg Eiríksdóttir (f. 1967) lauk MA í listkennslu frá HA vorið 2017, diploma í myndlist frá Myndlistaskólanum á Akureyri 2003 og BEd frá KHÍ 1991. Hún hefur starfað við myndlist samhliða kennslu myndlistargreina við VMA undanfarin ár en þessi ellefta einkasýning hennar er afrakstur starfslaunaárs hjá Akureyrarbæ.
„Ég hef verið upptekin af hæfileika okkar til að eiga í samskiptum við umhverfið í gegnum skynjun. Skynjunin er ákveðið undur sem opnar umhverfinu leið inn í líkamann. Þannig höfum við möguleika á að hrífast í náttúru og finna fyrir tengingu við hana. Fyrir mér er þessi upplifun eða merkingarbæra reynsla eins og marglaga skynjun eða nokkurs konar pólífónía, þar sem hvert lagið vefst um annað innra með mér,“ segir Björg.
Halldóra Helgadóttir – Verkafólk.
Á árunum eftir stríð var mikill uppgangur í iðnaði á Akureyri og voru flestir bæjarbúar tengdir verksmiðjunum á Gleráreyrum á einhvern hátt, enda voru þær stærsti vinnuveitandinn í bænum. Starfsemi verksmiðjanna lagðist endanlega af á tíunda áratugnum og var verslunarmiðstöð reist á svæðinu skömmu síðar. Nú er svo komið að það eina sem eftir stendur af þessarri merku sögu er að finna á söfnum bæjarins.
Til heiðurs horfnum tímum og sérstaklega því fólki sem vann á verksmiðjunum er þessi sýning sett saman, en einnig til að minna á hvað starfsemi verksmiðjanna átti stóra hlutdeild í bæjarlífinu á Akureyri.
Halldóra Helgadóttir (f. 1949) lauk námi í málaradeild Myndlistaskólans á Akureyri 2000 og hefur síðan haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum bæði erlendis og innanlands.
Knut Eckstein – „ég hefenganáhuga á nokkrusemerstærraen lífið“
Knut Eckstein býður áhorfandanum upp á ákveðinn viðsnúning, eða ranghverfu – hvorki meira né minna en áhrifin, skynhrifin – af risavöxnu, þrívíðu landslagsmálverki sem hægt er að ganga inn í. Og ef til vill er hið hefðbundna og viðtekna orð málverk viðeigandi til þess að gefa áhorfendum einhverja nasasjón af þessu verki Knuts Eckstein, sem má án nokkurs vafa segja að sé stórfurðulegt.
„Á víð og dreif eru tæki og tæknibúnaður sem ekki eru í notkun – vifta, reykvél – sem vísa til upphaflega glæstra fyrirætlana, sem hafa verið gefnar upp á bátinn. Samþjöppun og sameining er það sem hugnast Knut Eckstein í listrænni nálgun.“ Marcel Baumgartner um sýningu Knut Eckstein í Kunsthalle Gießen, 2016 (útdráttur úr fréttatilkynningu).
Samsýning – Síðasta Thule
Aðilar sem tengjast listrænum hluta International Committee for Christopher Columbus, listamenn frá bæði Gamla og Nýja heiminum, hafa lengi vonast eftir að geta haldið listsýningu á Íslandi.
Í endurminningum sínum minntist Kristófer Kólumbus á eyjuna Thule og í bréfum Seneca er vitnað til Ultima Thule sem nyrsta hluta hins kannaða heims. Það er því í anda landkönnuðanna sem ítalskir listamenn leggja upp í för til Íslands / Ultima Thule með verk sín, til að taka þátt í sýningunni í Listasafninu á Akureyri og opna þannig leiðina til nyrsta hluta hins nýja heims og síheillandi dulúðar hans.
Dagskrá í tengslum við sýningarnar:
Fjölskylduleiðsögn um sýningarnar, sunnudaginn 27. október kl. 11-12.
Halldóra Helgadóttir: Þriðjudagsfyrirlestur, þriðjudaginn 8. október kl. 17-17.40.
Knut Eckstein: Gjörningur, laugardaginn 26. október kl. 15.
Björg Eiríksdóttir: Listamannaspjall, laugardaginn 2. nóvember kl. 15.
Halldóra Helgadóttir: Listamannaspjall, laugardaginn 18. janúar kl. 15.
UMMÆLI