Fjölmenni tók þátt í 1. maí hátíðarhöldum

Mynd frá kröfugöngunni í dag. Mynd: Eining-Iðja.

Mikið fjölmenni safnaðist saman í ágætis veðri á Akureyri í dag til að taka þátt í kröfugöngu sem stéttarfélögin á Akureyri stóðu fyrir í tilefni af 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Einnig var góð mæting í kaffiveislu á skrifstofu stéttarfélaganna í Fjallabyggð. Þetta kemur fram á heimasíðu stéttarfélagsins Einingar-Iðju í dag.

Kjörorð dagsins voru; ,,Sterkari saman!”
Gengið var frá Alþýðuhúsinu gegnum miðbæinn að Ráðhústorgi og svo niður í Menningarhúsið Hof, þar sem fram fór hátíðardagskrá í tilefni dagsins. Heimir Kristinsson, varaformaður Byggiðnar, flutti ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð og Guðný Helga Grímsdóttir, húsasmiður og formaður Félags fagkvenna, flutti aðalræðu dagsins. Auk þess var boðið upp á skemmtiatriði, þar sem Birkir Blær og Vandræðaskáld fóru á kostum. Að dagskrá lokinni var boðið upp á glæsilegt kaffihlaðaborð í Menningarhúsinu Hofi.

Heimir sagði m.a. í ávarpinu að: „það skal engum detta í hug að við séum hætt að berjast fyrir betra og réttlátara þjóðfélagi því við „stöndum saman“.  Við þurfum að berjast á móti þeirri sjálftöku launa sem nú hefur viðgengist á æðstu stöðum og þeirri stéttarskiptingu sem nú er að byggjast upp.  Það vekur ugg í brjósti og reiði almennings hvernig menn geta gengið fram í nafni kapítalisma og skammtað sér það sem þeir vilja.“ Ávarpið í heild má lesa hér fyrir neðan.

 

Ávarp 1. maínefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð 2018 

Ágætu félagar! Til hamingju með daginn!

Kjörorð dagsins er,  Sterkari saman! 

Í dag 1. maí á hátíðs- og baráttudegi verkalýðshreyfingarinnar komum við saman til að líta yfir farinn veg. Hverju hefur barátta undanfarinna ára skilað okkur? Við komum líka saman til að horfa fram á veginn, til að velta fyrir okkur hver næstu verkefni okkar verða.

Fjölmörg þeirra réttinda sem vinnandi fólki þykja sjálfsögð í dag þurfti mikla baráttu og oft fórnir til að fá samþykkt. Það á við um samningsrétt, uppsagnarfrest, veikindarétt, fæðingarorlof, vinnuvernd, orlofsrétt, lífeyrissjóði, launajafnrétti, 40 stunda vinnuviku og margt fleira.

Þetta eru allt réttindi sem ekki er sjálfgefið að vari til frambúðar, ef við stöndum ekki saman.

Það skal engum detta í hug að við séum hætt að berjast fyrir betra og réttlátara þjóðfélagi því við „stöndum saman“.  Við þurfum að berjast á móti þeirri sjálftöku launa sem nú hefur viðgengist á æðstu stöðum og þeirri stéttarskiptingu sem nú er að byggjast upp.  Það vekur ugg í brjósti og reiði almennings hvernig menn geta gengið fram í nafni kapítalisma og skammtað sér það sem þeir vilja.

Síðustu ár hafa launþegar gert samninga þar sem meginþorri launamanna hefur fengið sambærilegar launahækkanir, en nú er staðan þannig að samningar á almenna markaðnum eru lausir um næstu áramót og fjölmargir eru með lausa samninga nú þegar.  Frá áramótum hefur verið lokið við yfir tuttugu samninga sem flestir hafa það sammerkt að eru stuttir og ná einungis nokkra mánuði fram yfir áramót.  Það liggur því mikið við að vanda vel til verka við samningagerð á næstu misserum svo að svokallað höfrungahlaup taki sig ekki upp eina ferðina enn.

Kaupmáttur hefur að jafnaði aukist undanfarið en hann hefur skilað sér misvel til ólíkra hópa, þar hafa aldraðir og öryrkjar látið mest í sér heyra og er það ekki að ósekju.  Skoða þarf sérstaklega skerðingar lífeyris og svo samspil lífeyris og greiðslna frá lífeyrissjóðum gagnvart þessum hópum svo þeir geti lifað með reisn í þessu samfélagi.  Einnig þarf að fara yfir skattpíningu lægstu launa, skattpíningu sem leitt hefur til minni kaupmáttar lægstu launa.

Mikil óvissa er framundan í kjaramálum nú þegar stéttarfélög um allt land eru að undirbúa kröfugerðir fyrir næstu samningalotu. Ég hvet alla að taka virkan þátt í mótun kröfugerða í sínu stéttarfélagi því við erum sterkari saman. Við eigum að hafa skoðun á því hvað stéttarfélagið okkar er að gera. En við skulum vera minnug þess að alltaf þegar verkalýðshreyfingin er ásökuð um óbilgjarnar kaupkröfur er launafólk eingöngu að gera kröfur um mannsæmandi laun fyrir dagvinnu. Einmitt þá er verkalýðshreyfingin að gera kröfu um betra og réttlátara samfélag.  Einmitt þá er verkalýðshreyfingin að gera kröfu um að þeir sem höllum fæti standa sé rétt hjálparhönd.

Samvera foreldra og barna er besta forvörnin gegn erfiðleikum ungs fólks. Í ljósi vaxandi fíkniefnaneyslu, aukningu andlegra sjúkdóma og erfiðleika ungs fólks er nauðsynlegt að búa betur að fjölskyldulífi. Það verður best gert með því að gera fjölskyldum kleift að lifa mannsæmandi lífi af dagvinnutekjum.  Fjölskyldan er sterkari saman.

Samtök launafólks ganga nú fram undir kjörorðinu: “Sterkari saman.” Á síðustu árum og áratugum hefur samstaða launafólks skilað verulegum árangri við uppbyggingu velferðarþjóðfélagsins. Þeirri baráttu lýkur aldrei.  Það eru margir sem vilja brjóta niður það sem við höfum áorkað.  Þess vegna er mikilvægt að launafólk standi vörð og snúi bökum saman í sameiginlegum hagsmunamálum.

Félagar! Stöndum saman og sækjum fram.

Við erum “Sterkari saman.”

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó