Fjölmenni safnaðist saman við 1. maí hátíðarhöldinHin árlega kröfuganga var vel sótt. Mynd: Eining-Iðja.

Fjölmenni safnaðist saman við 1. maí hátíðarhöldin

Fjölmenni safnaðist saman  á Akureyri í gær til að taka þátt í kröfugöngu sem stéttarfélögin á Akureyri stóðu fyrir í tilefni af 1. maí, alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Einnig var góð mæting í kaffiveislu á skrifstofu stéttarfélaganna í Fjallabyggð.

Kjörorð dagsins voru: „Jöfnum kjörin – samfélag fyrir alla.“ Gengið var frá Alþýðuhúsinu gegnum miðbæinn að Ráðhústorgi og svo niður í Menningarhúsið HOF, þar sem fram fór hátíðardagskrá í tilefni dagsins. Jóhann Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, flutti ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð og Drífa Snædal, forseti ASÍ, flutti aðalræðu dagsins. Auk þess var boðið upp á skemmtiatriði. Örn Smári Jónsson söng frumsamin lög og Svenni Þór og Regína Ósk sungu lög úr myndinni A star is born. Hátíðardagskrá lauk með sameiginlegum söng á Maístjörnunni undir stjórn Svenna og Regínu. Að dagskrá lokinni var boðið upp á glæsilegt kaffihlaðaborð í Menningarhúsinu HOFI. 

Jóhann sagði m.a. í ávarpinu að „hlutverk verkalýðshreyfingar í dag er, auk hefðbundinnar kjarabaráttu er að berjast fyrir samfélagi jafnréttis og jafna tækifæri launafólks og alls almennings til að geta lifað mannsæmandi lífi þar sem jafnrétti kynja og tækifæra ríkir og jafnt aðgengi allra sé að menntun, heilbrigðiskerfi, lyfjum og að húsnæði standi hverjum og einum til boða á viðráðanlegum kostnaði út frá þeirra stöðu. Þetta er sannarlega markmið hreyfingarinnar og í vinnslu á hverjum tíma. Við höfum náð árangri en eigum samt langt í land víða.“ Ávarpið í heild má lesa HÉR, inn á heimasíðu Einingar-Iðju, en fréttin er fengin þaðan.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó