Fjölbreyttir viðburðir Sumarlistamanns Akureyrar 2024

Fjölbreyttir viðburðir Sumarlistamanns Akureyrar 2024

Sunneva Kjartansdóttir er dansari og danshöfundur sem hefur stundað nám við Copenhagen Contemporary Dance School og mun halda viðburði tengda dansi á Akureyri í allt sumar. Hún var valin Sumarlistmaður Akureyrar 2024 sem Kaffið greindi áður frá en yfirlit af viðburðum frá Akureyrarbæ er svohljóðandi:

Dans í opnu rými í Hofi

Alla þriðjudaga í júlí verður Sunneva með opnar ballettæfingar á svölunum í Hofi sem gestir og gangandi geta fylgst með. Æfingarnar eru kl.12-13. Sunneva stundar um þessar mundir nám við Copenhagen Contemporary Dance School og mun nýta rýmið í Hofi til þess að æfa ballett við stöng með nútímalegu ívafi rétt eins og hún gerir í skólanum úti. Svo tyllið ykkur í Hamragilið og njótið! Yfirlit yfir viðburðina í Hofi má sjá á heimasíðu MAK og á viðburðadagatali Halló Akureyrar.  

3×3 Danssýning í Deiglunni

Þann 14. júlí kl. 18 býður Sunneva ásamt góðum gestum upp á danssýningu í Deiglunni í samstarfi við Listasumar og Gilfélagið. Þar munu dansarar sýna afrakstur vinnustofu sem fer fram dagana 12. til 14. júlí. Upplýsingar um viðburðinn má finna á viðburðadagatali Listasumars.

Opnir danstímar fyrir alla víðsvegar á Akureyri í sumar

Einnig mun Sunneva bjóða upp á opna danstíma fyrir almenning á Akureyri. Danstímarnir verða m.a. í Lystigarðinum og í Sundlaug Akureyrar. Um er að ræða einfalda danstíma sem öll gætu tekið þátt í hvort sem það væri standandi, sitjandi, ofan í lauginni eða á bakkanum. Engin fyrri dansreynsla er nauðsynleg! Sunneva stefnir svo að því að bjóða í danspartý á Akureyrarvöku þar sem teknar verða æfingar úr tímanum og samkvæmt Sunnevu verður lögð áhersla á að „hafa bara gaman og hrista sig smá“.

Viðburðirnir munu birtast fljótlega á viðburðadagatali halló Akureyrar og á viðburðadagatali Listasumars www.listasumar.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó