NTC

Fjögurra daga gjörningahátíð hefst í dag

A! Gjörningahátíð er fjögurra daga hátíð sem hefst í dag, fimmtudaginn 31. ágúst, og lýkur sunnudaginn 3. september. Að hátíðinni standa Listasafnið á Akureyri, LÓKAL alþjóðleg leiklistarhátíð, Reykjavík Dance Festival, Menningarfélag Akureyrar, Leikfélag Akureyrar og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar.

A! er hátíð þar sem myndlistar- og sviðslistafólk fremur gjörninga og setur upp gjörningatengd verk.
Hátíðin er nú haldin í þriðja sinn en hún sló strax í gegn þegar hún var haldin í fyrsta skipti í september árið 2015 og sóttu um 1.500 ánægðir gestir hátíðina. Þátttakendur voru vel þekktir gjörningalistamenn, leikarar og ungir, upprennandi listamenn. Vídeólistahátíðin Heim var haldin á Akureyri á sama tíma og „off venue“ viðburðir víðsvegar um bæinn.

Margrét Elísabet Ólafsdóttir listfræðingur sagði í pistli í Víðsjá á Rás 1 um hátíðina meðal annars:
„Dagskrá Gjörningahátíðarinnar A! var því ekki aðeins fjölbreytt heldur í heildina einkar vel heppnuð. Sú ákvörðun að stefna saman eldri listamönnum og upprennandi, gestum og heimamönnum virðist vera góð uppskrift að hátíð sem vonandi verður árlegur viðburður.“

Gjörningarnir á A! 2017 munu fara fram í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi, Samkomuhúsinu, Hofi, Verksmiðjunni á Hjalteyri, Kaktus, Rósenborg, Deiglunni, Lystigarðinum og á fleiri stöðum á Akureyri.
Listamennirnir og hóparnir sem taka þátt að þessu sinni eru: Arna Valsdóttir (IS) og Suchan Kinoshita (J/NL), Gabrielle Cerberville (USA), Gjörningaklúbburinn / The Icelandic Love Corporation (IS), Heiðdís Hólm (IS), Hekla Björt Helgadóttir & Svefnleikhúsið  – The Sleep Theatre (IS), Katrine Faber (DK), Magnús Logi Kristinsson (IS/SF), Voiceland – Gísli Grétarsson (IS/N), Mareike Dobewall (D) og Hymnodia (IS), Ragnheiður Harpa Leifsdóttir (IS), Rúrí (IS), Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir (IS) og Liv-K. Nome (N).

Á sama tíma fer vídeóalistahátíðin Heim fram en þátttakendur eru nemendur Suchan Kinoshita úr Listakademíunni í Münster, Þýskalandi: Hui-Chen Yun, Sabine Huzikiewiz, Lejla Aliev, Daniel Bernd Tripp, Mila Petkova Stoytcheva, Fabian Lukas Flinks, René Haustein, Inga Krüger, Georg Mörke, Lisa Katharina Droste, Nadja Janina Rich, Alyssa Saccotelli, Micael Gonçalves Ribeiro, Hagoromo Okamoto, Bastian Buddenbrock, Jana Rippmann, Kai Bomke og Takahiko Kamiyama.

Sambíó

UMMÆLI