NTC

Fimm Íslandsmeistaratitlar og tvö Íslandsmet

Fimm Íslandsmeistaratitlar og tvö Íslandsmet

Íþróttafélagið Akur frá Akureyri átti sitt besta Íslandsmeistaramót til þessa í bogfimi í upphafi mars. Liðið vann fimm Íslandsmeistaratitla og sló tvö Íslandsmet.

Feðginin Alfreð Birgisson og Anna María Alfreðsdóttir stóðu upp úr og tóku þrjá af fimm titlum fyrir Akur á mótinu en þau voru bæði að vinna sinn fyrsta innandyra, einstaklings Íslandsmeistaratitil á ferlinum. Izaar Arnar Þorsteinsson hélt áfram sigurgöngu sinni á berboga karla með sínum sjötta Íslandsmeistaratitli í röð. Akur vann einnig eitt silfur og eitt brons í einstaklings keppni og eitt silfur í liðakeppni á mótinu til viðbótar við fimm Íslandsmeistaratitlana.

Íslandsmeistaratitlar Akurs á mótinu

  • Trissubogi karla einstaklinga – Alfreð Birgisson.
  • Trissubogi kvenna einstaklinga – Anna María Alfreðsdóttir.
  • Berbogi karla einstaklinga – Izaar Arnar Þorsteinsson.
  • Trissubogi blandað lið – Anna María Alfreðsdóttir og Alfreð Birgisson skipuðu lið Akurs.
  • Berbogi kvenna lið – Lena Sóley Þorvaldsdóttir, Rakel Arnþórsdóttir og Viktoría Fönn Guðmundsdóttir skipuðu lið Akurs.

Íslendsmet Akurs á mótinu

  • Anna María Alfreðsdóttir Íslandsmet í útsláttarkeppni trissuboga kvenna U21 með 145 stig. En metið var 143 stig og átti Anna það sjálf frá því á Evrópumeistaramótinu innandyra í febrúar þar sem hún endaði í 4 sæti á EM í U21 flokki.
  • Undankeppni berboga kvenna liða með 769 stig

Einnig er vert að nefna að Lena Sóley Þorvaldsdóttir vann gullið í langboga kvenna. En langbogi er ekki formleg keppnisgrein á Íslandsmeistaramótum að svo stöddu og því ekki gefnir formlegir Íslandsmeistaratitlar eða skráð Íslandsmet fyrir langbogaflokk. Verið er að bæta við langbogaflokki á Íslandsmeistaramótum til þess að greina áhuga á keppnisgreininni og hvort að eigi að brjóta þá keppnisgrein frá berbogaflokki á Íslandsmeistaramótum í sér keppnisgrein. Langbogi er ekki skilgreindur í regluverki World Archery um markbogfimi og því mun það þurfa smá aðlaganir á regluverki til þess að koma þeim bogaflokki fyrir á Íslandsmeistaramótum formlega, en BFSÍ mun skoða að gera það ef nægur áhugi er á næstu árum á langboga sem sér keppnisgrein.

Hér fyrir neðan er hægt að finna myndskeið af úrslitaleikjum Akurs á Íslandsmeistaramótinu.

Trissubogi karla gull úrslitaleikur

Trissubogi kvenna gull úrslitaleikur

Berbogi karla gull úrslitaleikur

Trissubogi blandað lið gull úrslitaleikur

Íslandsmeistaramótið var haldið í Bogfimisetrinu í Dugguvogi 2 Reykjavík helgina 5-6 mars. 44 keppendur tóku þátt á mótinu og keppt var á laugardeginum í berboga- og trissubogaflokkum og á sunnudeginum í sveigboga- og langbogaflokkum.

Sambíó

UMMÆLI