Lögreglan á Norðurlandi eystra sagði í gærkvöldi, á Facebook-síðu sinni, frá því að hún hefði ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra lokið aðgerðum í Glerárhverfi á Akureyri þar sem 5 aðilar voru handteknir í heimahúsi. Tilkynnt hafði verið um líkamsárás og hótanir þar sem vopnum var beitt.
Lögreglan vopnaðist og var nærliggjandi götum lokað á meðan ástand var tryggt. Vakthafandi lögreglumenn sérsveitar ríkislögreglustjóra voru kallaðir út og stýrðu þeir handtökum á vettvangi.
Á mbl.is kemur fram að fimm eru enn í haldi og eru grunaðir um húsbrot og líkamsáras gegn einum aðila. Rannsókn er á frumstigi en miðar vel, enn er verið að vinna að vettvangsrannsókn og skýrslutökur og yfirheyrslur eru hafnar. Sá sem var ráðist á hlaut áverka en er þó ekki alvarlega slasaður. Grunur liggur á að um höggvopn hafi verið að ræða.
Ekki er talið að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða heldur virðist þetta frekar vera uppgjör milli aðila samkvæmt því sem Rut Herner Konráðsdóttir, lögreglu fulltrúi á Akureyri, sagði við mbl.is.
UMMÆLI