Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur sakfellt karlmann fyrir sérlega grófa nauðgun og brot í nánu sambandi á heimili sínu á Akureyri í september 2020. Héraðsdómur dæmdi manninn til fimm ára fangelsisvistar auk greiðslu fjögurra milljóna króna í skaðabætur til brotaþola.
Dómurinn var fyrst birtur í gær en hann féll fyrst 28. maí. Í honum segir meðal annars: „Árás sú sem ákærði er nú sakfelldur fyrir stóð lengi yfir. Brotaþoli hlaut umtalsverða áverka. Þá er hún illa haldin af áfallastreitu og ótta. Brot hans samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var sérlega gróft og niðurlægjandi og ber að virða það til refsiþyngingar.“
Það var álit dómsins að það sé hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi þvingað brotaþola til að þola það ofbeldi sem lýst er í ákærunni með vísan til framburðar konunnar, mikilla líkamlegra áverka hennar, andlegs ástands hennar við komu á neyðarmóttöku og staðfestingar meðferðaraðila á mjög versnandi andlegu ástandi hennar í kjölfar þessara atvika.
Þá segir einnig að með vísan til framburðar brotaþola, mikilla líkamlegra áverka hennar, andlegs ástands hennar við komu á neyðarmóttöku og staðfestingar meðferðaraðila á mjög versnandi andlegu ástandi hennar í kjölfar þessara atvika, sé það álit dómsins að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi þvingað brotaþola til að þola það ofbeldi sem lýst er í ákæru.
Maðurinn hefur áður brotið gegn konunni en í júní 2019 var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir margítrekuð brot gegn henni frá hausti 2015 til júlí 2018.