FIMAK verður Fimleikadeild KA

FIMAK verður Fimleikadeild KA

Sameining Fimleikafélags Akureyrar, FIMAK og Knattspyrnufélags Akureyrar, KA, var samþykkt einróma á félagsfundum beggja félaga sem haldnir voru í gærkvöldi. Sameiningarviðræður hafa staðið yfir undanfarna mánuði en Íþróttabandalag Akureyrar og Akureyrarbær hafa einnig komið að þeim viðræðum.

FIMAK verður lagt niður í núverandi mynd og færist starfsemi þess undir KA sem fimleikadeild félagsins. KA tekur formlega við allri starfsemi FIMAK frá og með deginum í dag, 1. desember.

Núverandi stjórn FIMAK starfar áfram en nú sem stjórn fimleikadeildar KA. Sonja Dagsdóttir, formaður FIMAK er mjög sátt við niðurstöðuna: „Ég tel þessa ákvörðun vera mikið gæfuspor fyrir FIMAK.  Við göngum inn í stórt og öflugt félag með sterka innviði og við teljum að þetta skref muni efla faglegt starf FIMAK enn frekar á komandi árum.“

Eiríkur S Jóhannsson, formaður KA, segir sameininguna efla KA enn frekar sem fjölgreinafélag og vera í takt við þá íþróttastefnu sem hefur verið við lýði í bænum undanfarin ár. Eiríkur leggur áherslu á að þessi viðbót við starf KA sé í samræmi við markmið félagsins um að efla íþróttastarfsemi á Akureyri og virkja sem flesta til þátttöku í þeim, sérstaklega sé ánægjulegt að fá fleiri stúlkur sem iðkendur hjá félaginu og þannig jafnist hlutfall drengja og stúlkna hjá KA.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó