Ekki hefur slegið af 12 mánaða hækkunum á fermetraverði á Akureyri líkt og hóf að gerast fyrir ári síðan á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans þar sem fjallað erum fasteignaverð á Akureyri og Morgunblaðið greindi frá í dag.
Þar kemur fram að fermetraverð á Akureyri hafi hækkað um 15,1% milli áranna 2016 og 2017. Frá árinu 2009 hafi fermetraverð hækkað samhliða jafnri fjölgun fasteignaviðskipta. Þá var lægsta fermetraverðið á Oddeyri með 11,2% hækkun, eða 220 þúsund á fermeter. Næst lægsta verðið var í Holta- og Hlíðahverfi, eða 259 þúsund á fermeterinn.
Mesta hækkunin á Brekkunni og í Innbænum
Mesta hækkunin var á Brekkunni og í Innbænum, eða um heil 26,4%. Hæsta fermetraverðið mátti þó finna í Naustahverfi, þar sem fermeterinn er á 364 þúsund. Giljahverfi fylgir þar fast á eftir með 320 þúsund krónur á fermeterinn.
Munurinn á dýrasta og ódýrasta hverfinu hélt áfram að aukast nú á árinu 2018. Munurinn nam um 126 þúsund á fermetra en hann hefur aukist jafnt og þétt frá 2010 þegar hann var 72 þúsund.
Von á frekari hækkunum
„Fermetraverð á Akureyri hefur haldið áfram að hækka þrátt fyrir rólegri tíma á höfuðborgarsvæðinu. Mikil uppbygging nýrra íbúða er nú í gangi bæði í Naustahverfi sem og í Innbænum. Þegar þær fasteignir fara á sölu er því von á að meðalfermetraverð á Akureyri hækki enn frekar. Nýjar íbúðir hafa almennt hærra fermetraverð, auk þess sem staðsetning margra nýju íbúðanna er eftirsóknarverð,“ segir í Hagsjánni og frétt Morgunblaðsins.
UMMÆLI