Ferðaskrifstofur horfa í auknum mæli til Akureyrar

Mynd: Akureyri.is

Erlendar ferðaskrifstofur hafa undanfarið verið í kynnisferð á Akureyri í boði Akureyrarstofu. Ferðakaupstefnan Icelandair Mid-Atlantic, árleg ferðakaupstefna á vegum Icelandair var haldin í 26. skipti undir lok síðustu viku.

Markmiðið er að tengja saman kaupendur og seljendur ferðaþjónustu til að styrkja og auka ferðamannastraum til Íslands. Alls voru rúmlega 240 sýningarbásar settir upp í Laugardalshöllinni og í þeim fóru fram á sjötta þúsund bókaðir fundir á milli viðskiptaaðila.

Akureyrarstofa hefur tekið þátt í sýningunni undanfarin ár og kynnir þar þá þjónustu sem í boði er í bænum og næsta nágrenni. Áhugi á Akureyri og Norðurlandi hefur vaxið mikið undanfarin ár enda hafa margir áhuga á að bæta við áfangastöðum utan suðvesturhornsins. Beint flug bresku ferðaskrifstofunnar Super Break til Akureyrar hefur einnig aukið mjög þá athygli sem bærinn fær hjá erlendum ferðaþjónustuaðilum.

Í framhaldi af sýningunni var erlendum ferðaskrifstofum boðið í kynnisferð til Akureyrar í svonefnda „Akureyri City Inspection“ ferð í samstarfi við Saga Travel & GeoIceland. Í ferðinni var farið vítt og breitt um bæinn, gististaðir og veitingastaðir heimsóttir auk þess sem farið var m.a. í Hlíðarfjall, sundlaugina og Menningarhúsið Hof.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó