Íslenska ríkið hefur samið við hollensku ferðaskrifstofunni Voigt Travel um styrk til að markaðssetja Akureyrarflugvöll og fljúga þangað frá og með næsta sumri. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Styrkurinn getur numið rúmum 60 milljónum króna, eða 430 þúsund evrum, eftir því hversu oft er flogið.
Sjá einnig: Beint flug milli Akureyrar og Hollands
Ferðaskrifstofan sótti um styrk úr Flugþróunarsjóði, sem settur var á laggirnar árið 2015 og fær deilt út fé samkvæmt reglum sjóðsins. Markmið sjóðsins er að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina á Akureyri og Egilsstöðum.
Í frétt Fréttablaðsins segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, mikilvægt að fjölga gáttum inn til landsins og að Flugþróunarsjóðurinn sé að virka sem skyldi. „Fyrir það fyrsta er frábært að sjá að Flugþróunarsjóðurinn er að virka. Við vissum að það myndi taka tíma að koma verkefnum í gang. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að þetta kemur sér ekki bara vel fyrir Akureyri heldur getur markaðsstarf sem þetta haft áhrif á Norðurland vestra og austur á land. Ferðamenn sem fljúga á Akureyri munu ferðast um allt Norðurland og auka þar umsvif í greininni sem er öllum til hagsbóta.“
UMMÆLI