Ferðamenn í Eyjafirði hæfilega margir að mati heimamanna

Flestir íbúar í Eyjafirði telja ferðamenn í þeirra heimabyggð vera hæfilega marga yfir sumartímann en heldur fáa á veturna. Annar hver íbúi telur ferðamenn vera hæfilega marga á haustin og á vorin. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýlegrar könnunar sem Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) gerði á Eyjafjarðasvæðinu og nefnist Eyfirðingurinn í hnotskurn.

Í frétt á vefsíðu Rannsóknarmiðstöðvar Ferðamála kemur fram að íbúar í Eyjafirði voru spurðir hvað lýsti best viðhorfi þeirra til fjölda ferðafólks í þeirra heimabyggð eftir ársíðum. Svörin voru greind eftir kyni, aldri og búsetu svarenda á Eyjafjarðarsvæðinu sem skipt var í fernt. Svæðin fjögur voru: Akureyri norðan Glerár, Akureyri sunnan Glerár, Út-Eyjafjörður (Dalvík og Fjallabyggð) og Hrepparnir (Grýtubakkahreppur, Svalbarðsstrandarhreppur, Eyjafjarðarsveit og Hörgársveit).

Könnunin leiddi ljós að 60% svarenda í Eyjafirði töldu ferðamenn vera hæfilega marga á sumrin en 24% töldu ferðamenn vera heldur marga eða allt of marga. 50% svarenda töldu ferðamenn hæfilega marga á haustin og á vorin. Lítill munur var á viðhorfum Eyfirðinga til fjölda ferðamanna á sumrin en þó reyndust 35% svarenda með búsetu á Akureyri norðan Glerár og 26% svarenda með búsetu á Akureyri sunnan Glerár telja ferðamenn á svæðinu vera heldur marga eða allt of marga. Tæplega helmingur svarenda með búsetu á Akureyri norðan Glerár taldi ferðamenn vera hæfilega marga á veturna. Aftur á móti taldi meirihluti svarenda á hinum svæðunum ferðamenn á veturna vera heldur fáa. Viðhorf svarenda til fjölda ferðamanna á vorin og hausti reyndust svipuð þar sem um helmingur svarenda taldi fjölda ferðamanna hæfilegan en um þriðjungur taldi ferðamenn vera heldur fáa. Almennt reyndist lítill munur vera á svörum eftir aldri eða kyni svarenda.

RMF bar svör Eyfirðinga saman við niðurstöður sömu spurninga sem voru lagðar fyrir í könnun RMF og RHA á viðhorfum heimamanna á Siglufirði, Höfn í Hornafirði og í Mývatnssveit til ferðaþjónustu og ferðamanna vorið 2016. Töluverður munur virðist vera á viðhorfi Eyfirðinga og íbúa í Mývatnssveit og á Höfn í Hornafirði til fjölda ferðamanna á sumrin. Íbúar á síðarnefndu svæðunum voru líklegri til að telja ferðamenn á sumrin vera heldur marga eða of marga en íbúar í Eyjafirði. Viðhorf til fjölda að vetri til eru einnig ólík. Meirihluti íbúa í Mývatnssveit og á Höfn taldi fjölda ferðamanna vera hæfilegan á veturna á meðan meirihluta íbúa í Eyjafirði þótti ferðamenn heldur fáir.

 

Hér fyrir neðan gefur að líta niðurstöður spurninganna um viðhorf Eyfirðinga til fjölda ferðamanna á svæðinu skipt eftir búsetu svarenda fyrir hverja árstíð. Þar má einnig sjá svör íbúa á Höfn, Siglufirði og í Mývatnssveit við sömu spurningum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó