NTC

Ferðafélag Akureyrar opnar fyrir Þaulinn og gönguvika hefst á mánudaginn.Útivistarfólk á Akureyri mun hafa í nógu að snúast þetta sumarið.

Ferðafélag Akureyrar opnar fyrir Þaulinn og gönguvika hefst á mánudaginn.

Næsta vika verður gönguvika hjá Ferðafélagi Akureyrar, en félagið mun standa fyrir gönguferðum á hverjum virkum degi alla vikuna. Nánari upplýsingar um hverja ferð fyrir sig er að finna á ffa.is en dagskrá gönguvikunnar lítur þannig út:

19. júní: Ganga og jóga í Leyningshólum. Brottför kl. 19:00. Frí ferð.

20. júní: Sólstöðuganga á Þengihöfða. Brottför kl. 21:00. Frí ferð.

21. júní: Gengið frá Gásum að Skipalóni. Sagan rifjuð upp. Brottför kl. 19:00.

22. júní: Sólstöðuganga á Kræðufell. Brottför kl. 20:00.

23. júní: Jónsmessuganga á Múlakollu. Brottför kl. 20:00.

Hins vegar er einnig nóg um að vera fyrir þá sem ekki geta beðið þar til eftir helgi til að leggja af stað. Í dag opnaði félagið fyrir árlegan gönguleik sinn, Þaulinn, í þrettánda skiptið. Hann skiptist í flokk fullorðinna annars vegar og flokk barna yngri en 12 ára hins vegar. Leikurinn gengur út á að fara á fimm stöðvar fyrir fullorðna og þrjár stöðvar fyrir börn, finna þar leyniorð eða þraut og skrifa niður á svarblað. Veglegir vinningar eru í boði frá styrktaraðilum félagsins. Frekari upplýsingar um skráningu og gönguleiðir er að finna hér.

Það má því segja að sumarið sé að hefjast með trompi hjá Ferðafélagi Akureyrar, en félagið á nóg eftir. Þorgerður Sigurðardóttir, formaður félagsins, segir í samtali við Kaffið að þau hjá FFA séu mjög bjartsýn fyrir sumrinu. Aðsókn fari að vísu alltaf að einhverju leyti eftir veðri, bæði í hálendisskala félagsins og ferðir sem það stendur fyrir, en nóg sé um að vera og fjölbreytt og metnaðarfull dagskrá verði nánast allar helgar sumarlangt.

Þar að auki mun félagið taka stórt skref í lok þessa mánaðar þegar nýtt þjónustuhús verður tekið í notkun við aðstöðu félagsins í Drekagili. Þjónustuhúsið mun bera nafnið Víti og verður þar í fyrsta sinn boðið upp á veitingasölu í aðstöðum félagsins.

VG

UMMÆLI

Sambíó