Fékk blómvönd frá bæjarstjórn á 100 ára afmælinu

Fékk blómvönd frá bæjarstjórn á 100 ára afmælinu

Sólveig Elvina Sigurðardóttir fagnaði 100 ára afmæli sínu á sunnudaginn og fékk fallegan blómvönd frá bæjarstjórn Akureyrar af því tilefni. Sólveig fæddist 26. maí 1924 í Ólafsfirði og ól þar manninn til 18 ára aldurs þegar hún flutti til Akureyrar. Þar giftist hún Ottó Aríusi Snæbjörnssyni (1920-2012) og saman eignuðust þau soninn Magnús Aríus sem lést árið 2011 en lét eftir sig þrjú mannvænleg börn sem eiga orðið marga afkomendur. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar þar sem fjallað er nánar um líf Sólveigar:

Sólveig vann 32 ár í Sambandsverksmiðjunum á Gleráreyrum, fyrst í fataverksmiðjunni Heklu en síðan í skógerðinni Iðunni. Í spjalli við Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra lýsti hún því hvílíkt reiðarslag það var þegar verksmiðjunum var lokað og um 800 manns misstu vinnuna.

Sólveig er lífsglöð og mjög ern. Hún segist taka því sem að höndum ber með jafnaðargeði, eldar sjálf sinn mat og nýtur þess að búa á 4. hæð á fallegum stað með útsýni út Eyjafjörðinn.

Afmælisveislan var haldin með pompi og prakt á sunnudaginn og þá kom meðal annars einn af nágrönnum Sólveigar færandi hendi með afmælisgjöf frá öðrum íbúum fjölbýlishússins. „En hann er nú svo ungur,“ segir Sólveig á vef Akueyrarbæjar. „Held að hann sé ekki nema 93ja ára.“

Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó