Fegrun í bæjarlandinu: Kjarnaskógur, Hamrar og Lystigarður

Ingibjörg Ólöf Isaksen skrifar

Á Akureyri er að finna margar útivistarperlur og stöðugt er unnið í því að auka aðgengi bæjarbúa að þeim og bæta í afþreyingarmöguleikana.

Að Hömrum reka skátar á Akureyri útilífsmiðstöð og þar hefur verið unnið að því að útbúa nýja bílabraut sem áður var í garðinum við Sundlaug Akureyrar. Er þetta liður í að efla enn frekar það frábæra svæði sem Hamrar bjóða upp á og fjölga þeim möguleikum sem í boði eru. Hvet ég bæjarbúa til að nýta sér þetta frábæra útivistarsvæði sér til ánægju og yndisauka.

Kjarnaskógur hefur jafnt og þétt verið að byggjast upp sem allsherjar útivistar- og afþreyingarsvæði fyrir alla fjölskylduna. Strandblaksvellirnir hafa notið mikilla vinsælda og var ákveðið að bæta við tveimur völlum þar nú í sumar og eru nú þar fjórir löglegir keppnisvellir. Á svæðinu er auk þess vinsæll ærslabelgur, nýtt salernishús, grillhús og leiksvæði sem býður upp á fjölda leiktækja. Borðtennisborð er einnig á svæðinu auk þess sem framkvæmdir eru hafnar við að setja upp minigolfvöll. Steinagerðisvöllur var endurgerður, sett var upp öryggiskerfi við salernishús auk þess sem unnið var að ýmsum öðrum framkvæmdum á svæðinu. Stefnt er að því í haust að setja upp níu körfu frisbígolfvöll sem verður framlenging á núverandi níu körfu velli á Hömrum og nær inn í Kjarnaskóg að ofanverðu.
Í bæjarlandinu eru nú fjórir aðrir frisbívellir, á Hamarkotstúni, Eiðsvelli, við Glerárskóla og á Hömrum.
Í tilefni 70 ára ræktunarafmælis Skógræktarfélags Eyfirðinga í Kjarnaskógi ákvað Akureyrarbær að veita svæði undir Yndisgarð sem er tilraunareitur með trjáplöntur. Verkefnið sem er til tíu ára er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Skógræktarfélags Eyfirðinga og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Samningur milli þessara aðila var undirritaður á Skógardeginum sl. laugardag.

Lystigarðurinn er með þekktari kennileitum Akureyrar og eitt af fallegustu svæðum okkar Akureyringa. Unnið hefur verið að því undanfarnar vikur að gera garðinn enn fallegri. Tjarnir og gosbrunnar í garðinum hafa verið lagfærðir og málaðir, gömlu salernin hafa fengið upplyftingu en þar verður sett upp ljósmyndasýning með gömlum myndum úr garðinum. Þá er búið að koma fyrir hjólaskýli við innganginn í garðinn að sunnanverðu auk þess sem nýjum rusladöllum hefur verið komið fyrir víðsvegar um garðinn.

Það er ómetanlegt að eiga kost á aðgengi að útivistarsvæðum eins og þessum og ég veit að bæjarbúar eru duglegir að nýta sér þau. Vonandi eru þær viðbætur sem unnið hefur verið að undanfarið til þess fallnar að auka nýtinguna og ánægjuna enn frekar.

Pistillinn er aðsend grein sem birtist upphaflega á akureyri.net.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó