NTC

Fegrum Oddeyrina og setjum meira fé í skipulagsmál

Fegrum Oddeyrina og setjum meira fé í skipulagsmál

Karl Liljendal Hólmgeirsson skrifar

Miðflokkurinn á Akureyri vill beita sér fyrir átaki sem við köllum “Fegrum Oddeyrina”. Mjög margt gott hefur verið unnið á liðnum árum á Oddeyrinni og þá sérstaklega af íbúunum sjálfum. Fjöldi húsa hefur verið gerður upp og mikinn metnað má sjá í einstökum götum í fegrun bæjarhlutans. Okkur finnst hinsvegar að bærinn sjálfur þurfi að sýna þar meira frumkvæði og átakið myndi þannig felast í því að gerð yrði markviss tímasett áætlun um lagfæringar á götum og gangstéttum sem víða eru ekki boðlegar í þessu gamla rótgróna íbúðarhverfi. Eins þarf að huga betur að opnum svæðum og göngu og hjólaleiðum. Um leið og þetta er gert yrðu íbúarnir hvattir til að gera fínt hjá sér, huga að görðum og útliti húsa. Það er mín trú að Oddeyrin geti orðið eitt fallegasta og eftirsóttasta hverfi bæjarins.

Mikilvægi atvinnusvæðanna á Oddeyrartanganum.

Á Oddeyrinni er einnig mjög mikilvægt atvinnusvæði. Þar eru fjölmörg mikilvæg fyrirtæki sem eru með hafnsækna starfsemi og gríðarlega mikilvægt er því að standa vörð um það svæði. Flest þeirra fyrirtækja sem þar eru hafa á liðnum árum fjárfest mikið í sinni starfsemi og mörg hver lyft grettistaki í umhverfismálum og ásýnd svo mikill sómi er af.

Standa þarf vörð um gildandi skipulag Oddeyrarinnar

Núgildandi aðalskipulag (Rammahluti fyrir Oddeyrina 2018-2030) er mjög gott skipulag sem var unnið í mikilli samvinnu og sátt við íbúa og fyrirtæki á svæðinu. Stefna um vistvæna byggð í sátt við atvinnulífið er ákveðið þema í skipulaginu þar sem hafnarsvæðin/atvinnusvæði eru neðan Laufásgötu, en á svæðinu milli Hjalteyrargötu og Laufásgötu ert gert ráð fyrir að svæðið þróist yfir í blöndu af láreystri íbúabyggð, verslun og þjónustu sem myndi um leið fallegan inngang í bæinn frá Hafnarsvæðunum. Hér vantar því ekkert uppá annað en virða og fara eftir þessu góða skipulagi.

Þurfum framtíðarsýn í skipulagsmálum, ekki endalausar reddingar þegar vantar lóðir

Koma þarf í veg fyrir lóðaskort bæði fyrir íbúabyggð og atvinnulífið. Við þurfum að hugsa skipulagsmálin í miklu stærra samhengi og sjá fyrir okkur hvernig bærinn geti vaxið til langrar framtíðar. Þurfum þannig að vera með heilu hverfin í skipulagsvinnu löngu áður en í þeim þarf að byggja. Tryggja þarf í skipulagi samgönguæðar, útivistarstíga, þjónustukjarna og ekki síst að græn opin svæði verði til í öllum hverfum. Til að ná þessu fram þarf að efla skipulagsdeildina og það gerist ekki nema með auknum fjárframlögum og fleira starfsfólki sem vinnur þessi verk.

Karl Liljendal Hólmgeirsson skipar 6. sæti á lista Miðflokksins á Akureyri

Sambíó

UMMÆLI