Framsókn

Fataverslun Rauða krossins á Akureyri fagnar 10 ára afmæli

Fataverslun Rauða krossins á Akureyri fagnar 10 ára afmæli

Fataverslun Rauða krossins á Akureyri fagnar í dag 10 ára afmæli. Í tilkynningu á Facebook síðu Rauða krossins í Eyjafirði segir að undirbúningur fyrir opnun verslunarinnar hafi hafist árið 2013. Tilkynningu Rauða krossins af Facebook má lesa hér að neðan:

Það vor hafði stærri hluti af húsnæði Gamla Lundar verið keypt undir starfsemina og hófust framkvæmdir á vormánuðum. Þann 24. janúar 2014 var búðin svo opnuð í fyrsta sinn. „Ég man að ég hafði farið heim með helling af barnafötum og þvegið og straujað til að hafa í búðinni,“ segir ein þeirra kvenna sem stóð vaktina fyrsta opnunardag verslunarinnar.

Verslunin var strax opin frá klukkan 13-17 alla virka daga svo mikilvægt var að finna nægan fjölda sjálfboðaliða til að manna alla daga. Það verkefni tók einn sjálfboðaliði að sér. „Ég hringdi í nokkrar vinkonur mínar sem voru hættar að vinna og þær hringdu svo í vinkonur sínar og allar tóku mjög vel í hugmyndina um að gerast búðarkonur þó formlegri starfsævi væri lokið.Ég man hvað mér fannst það góð hugmynd að fara að gera eitthvað allt annað en ég hafði gert á minni starfsævi. Mér fannst mjög skemmtilegt að prufa eitthvað alveg nýtt“, segir ein kvennanna.

Þessir nýju sjálfboðaliðar, auk margra sem fyrir voru, lögðust á árarnar við undirbúning opnunarinnar. Það þurfti að þrífa og raða í hillur auk ýmislegs annars sem viðkemur opnun nýrrar verslunar.

„Okkur þótti mikilvægt að hægt væri að kaupa föt ódýrt, sérstaklega barnaföt en markmiðið er auðvitað einnig að safna fjármunum til mannúðarstarfs“ segir ein af sjálfboðaliðunum sem enn starfar í búðinni og segir hafa komið þeim á óvart hvað aðsóknin hafi verið mikil, þó hún hafi svo margfaldast á þeim tíu árum sem liðin eru. „Núna er þetta mun breiðari hópur sem kemur, fólk á öllum aldri kemur og verslar sér föt, það er orðin lífstíll hjá mörgum að kaupa aðeins notuð föt“. Verðskráin hefur lítið breyst og má sem dæmi nefna að barnaföt kosta ennþá 300 krónur stykkið og buxur ennþá 1.000 krónur.

„Allan tímann hef ég verið jafn hissa á því hversu fínar vörur koma inn til okkar“ segir ein kvennanna og segir það í raun hafa komið á óvart hversu fljót búðin var að vinna sér sess í hugum bæjarbúa.

„Það var auðvitað mun rólegra á vöktunum þá en nú er enda hefur hugarfarið gagnvart því að kaupa notuð föt breyst mikið á þessum tíma.

Þær rifja upp hversu spenntar þær voru fyrir opnuninni, hversu gaman þetta var og hversu góðar minningar hafa skapast í gegnum starfið. Einhverjar kvennanna hafa hætt störfum en þónokkrar standa enn vaktina.

„Til þess að halda upp á daginn ákváðu sjálfboðaliðar að öll sala afmælisdagsins rynni til söfnunar Rauða krossins fyrir Grindavík auk þess sem tekið verður við frjálsum framlögum. Viðskiptavinum boðið upp á kaffi og konfekt og vonumst við til að sjá sem flest í búðinni í dag sem verður opin til klukkan 19 í tilefni dagsins,“ segir í tilkynningu Rauða krossins á Facebook.

VG

UMMÆLI

Sambíó