NTC

Fátækt: Líka á Akureyri

Fátækt: Líka á Akureyri

Það kannast líklega öll við það að vera blönk, að eiga ekki fyrir því sem okkur langar í. Færri, en því miður allt of mörg þekkja einnig að vera fátæk, að eiga ekki fyrir því sem þarf til að lifa mannsæmandi lífi með reisn. Sú virðist vera raunin hjá allt of mörgum í okkar fallega litla sveitarfélagi. Það er einfaldlega ekki ásættanlegt.

Í hópnum „Matargjafir á Akureyri og nágrenni“ á Facebook kom fram í gær að beiðnir um aðstoð streymi inn. Bendir stjórnandi hópsins á að margir foreldrar eigi ekki nesti fyrir börnin sín til að taka með í skólann og að ástandið sé að snarversna. Ríkisvaldið ber að sjálfsögðu mikla ábyrgð á þessari stöðu, hins vegar geta sveitarfélög ekki látið eins og þetta komi þeim ekki við.

Í mínum huga ætti það að vera forgangsmál bæjarstjórnar Akureyrarbæjar að vinna að auknum jöfnuði. Við vitum að ákveðnir hópar eru í mun erfiðari stöðu en aðrir. Fatlað fólk á erfiðara en aðrir með að fá vinnu, fólk af erlendum uppruna vinnur iðulega í einhæfum láglaunastörfum og lengri vinnudaga en aðrir og að þriðjungur launafólks á erfitt með að ná endum saman. Sá hópur sem er hefur það erfiðast fjárhagslega eru einstæðir foreldrar, innflytjendur og ungt fólk. Við vitum einnig að sá hópur sem er útsettastur fyrir fátækt eru börn einstæðra foreldra eða öryrkja. Við vitum líka að við getum tekið ákvarðanir út frá þessari vitneskju og jafnað stöðuna.

Fram undan er vinna við fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar, þar sem teknar eru ákvarðanir um hvernig eigi að nýta skattfé almennings. Fjármagnið er að sjálfsögðu takmarkað og því þarf að forgangsraða. Nú þegar er búið að setja út svokallaðan fjárhagsramma fyrir fjárhagsáætlun næsta árs. Í forsendum þess ramma er gert ráð fyrir því að hækka allar gjaldskrár um 10%, nema leikskólagjöld sem eigi að standa í stað.  Matarkostnaður í leikskólum á hins vegar að óbreyttu að hækka líkt og allar aðrar gjaldskrár þ.m.t vistunargjöld og matur í grunnskólum. Hins vegar ætti að sjálfsögðu að hlífa tekjulágum og barnafjölskyldum við skörpum verðhækkunum og horfa jafnvel frekar til að lækka gjöld á þá hópa. Það er líka hægt að gera ýmislegt annað t.d. hækka fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins, fjölga félagslegum leiguíbúðum og vinna hratt og örugglega að aðgerðum gegn sára fátækt barna.

Ég skora á bæjarfulltrúa og fulltrúa í nefndum sveitarfélagsins að nýta fjárhagsætlunarvinnuna sem framundan er til að forgangsraða fjármunum í þágu aukins jöfnuðar.

Hilda Jana Gísladóttir,

Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri

Sambíó

UMMÆLI